143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

losun og móttaka úrgangs frá skipum.

376. mál
[16:46]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður þekkir hvernig tengslum okkar og Evrópusambandsins er fyrir komið í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Við höfum litla, dvínandi og í dag nánast enga möguleika til að breyta tilskipunum af þessu tagi. Til að það væri hægt þyrftum við að sitja við borðið, það borð sem hæstv. ráðherra talaði heldur hraksmánarlega um áðan, og hafa áhrif þar. Þetta er eitt af því sem við höfum talað um sem styðjum aðild að Evrópusambandinu, að það sé okkur Íslendingum mikilvægt að vera við borðið þar sem ákvarðanir eru teknar og geta haft áhrif strax við upphaf ákvarðana um gerðir og tilskipanir. Menn tryggja ekki eftir á, það höfum við margsinnis fundið.

Hv. þingmaður spurði hvort ég teldi að það mundi bæta eitthvað úr þessu ástandi ef nýrri Evrópustefnu ríkisstjórnarinnar yrði framfylgt. Ja, hvers konar stefna var það? Hæstv. ríkisstjórn mat hana ekki meira virði en svo að hæstv. utanríkisráðherra kynnti hana í andsvari á þinginu. Hæstv. utanríkisráðherra taldi ekki að hún væri það mikilvæg að hún næði máli samkvæmt þeim forsendum sem þarf til að hafa samráð við utanríkismálanefnd, hefur ekki óskað eftir samráði við hana um stefnuna og gerði það ekki áður en hún var samþykkt í ríkisstjórn.

Enginn í utanríkismálanefnd hefur gert athugasemd við það, ekki heldur hv. formaður hennar. Það er auðvitað vegna þess að hún býttar mjög litlu, hún er ekkert annað en samtíningur á verkferlum sem eru fyrir hendi. Jú, þar er lögð áhersla á samstarf við Liechtensteina og Norðmenn. Ja, herra trúr, af því að hv. þm. Helgi Hjörvar spyr hvort það bætti eitthvað um stöðuna ef við hefðum tvo til þrjá menn í sölunum og göngunum (Forseti hringir.) í Brussel: Norðmenn höfðu 80 og það skipti ekki máli.