143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

losun og móttaka úrgangs frá skipum.

376. mál
[16:48]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir lýsinguna á því hvar við erum stödd hvað löggjafarvaldið varðar. Hann vék að viðurlögunum og þar hlýtur maður að spyrja hvort enn séu nýjar lendur að molna úr fullveldi okkar, að sektarheimildirnar séu líka komnar úr landi, ekki bara löggjöfin heldur ákvörðun um viðurlög sem menn þurfa að sæta í lögsögu okkar, og jafnvel skattlagningarvald ef þessar sektir eru að efni til skattur á atvinnulífið og þá sem starfsemi stunda hér á höfum.

Ég vil inna hv. þingmann eftir því.

Á fyrri hluta þarsíðasta áratugar var hv. þingmaður einmitt hæstv. umhverfisráðherra. (ÖS: Sællar minningar.) Ég hygg að ég muni rétt að þá hafi Umhverfisstofnun verið sett á fót og þá hafi fjögur stöðugildi verið í þeim málaflokki sem átti að gæta að mengun hafs og stranda. Voru þó öll opinber umsvif á Íslandi heldur minni en þau eru nú. Nú er mér sagt að það hafi svo sneyðst um þessa starfsemi að það sé hálft stöðugildi, ef svo mikið, sem á að aðgæta á vegum íslenska ríkisins um mengunarmál í gjörvallri efnahagslögsögu Íslands, á hafinu öllu og hinni miklu strandlengju og dýrmætu sem við eigum á Íslandi.

Af því að hv. þingmaður er líka líffræðingur vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann telji þetta viðunandi stöðu í málaflokknum og hvort hann telji með einhverju móti hægt að halda því fram að þessu sé fullnægjandi sinnt (Forseti hringir.) þegar ekki er lagt meira til málsins en raun ber vitni.