143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda.

351. mál
[16:53]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 141/2001, um lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda, með síðari breytingum.

Með frumvarpinu er lagt til að innleidd sé tilskipun nr. 2009/22 um að setja lögbann til verndar hagsmunum neytenda. Þessi tilskipun er endurútgáfa eldri tilskipunar um sama efni.

Ég vil leggja sérstaka áherslu á að hugsunin með frumvarpinu er fyrst og fremst til einföldunar þannig að í hvert skipti sem viðauka við EES-tilskipunina er breytt þarf ekki að fara út í lagabreytingar hér á landi sem geta, eins og þingheimur þekkir, verið tímafrekar. Þannig flýta eftirtaldar breytingar fyrir innleiðingu á tilskipunum hjá íslenskum stjórnvöldum og eru þannig í fullu samræmi við þann vilja þingsins að minnka halla á innleiðingu gerða frá Evrópusambandinu.

Þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu eru þrenns konar. Þær eru nokkuð tæknilegs eðlis en, eins og ég sagði í upphafi, hugsaðar til einföldunar kerfinu sem alltaf er til bóta í íslenskri stjórnsýslu.

Í fyrsta lagi er lagt til að í stað þess að þær EES-gerðir sem taldar eru upp í viðauka fyrrnefndar tilskipunar sé að finna, líkt og verið hefur, í sjálfum lagatextanum muni ráðherra gefa út reglugerð þar sem upptalninguna er að finna. Með því er sem fyrr segir komist hjá lagabreytingum í hvert skipti sem viðaukanum er breytt.

Í öðru lagi er lagt til að tilvísunum til eldri tilskipunar 98/27 sé breytt í tilskipun 2009/22 líkt og áður var nefnt.

Í þriðja og síðasta lagi er lagt til að horfið sé frá því að ráðuneytið sem lögin heyra undir, innanríkisráðuneytið, geti leitað lögbanns eða höfðað dómsmál fyrir stjórnvöldum eða dómstólum hér á landi eða í öðru EES-ríki. Sú breyting er í samræmi við það fyrirkomulag sem tíðkast í öðrum EES-ríkjum.

Þess í stað er lagt til að ráðuneytið muni eingöngu útnefna önnur stjórnvöld og félagasamtök á sviði neytendamála til að fara fram á lögbann eða höfða dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda. Telja verður að slík stjórnvöld og samtök sem sérhæfð eru í málaflokknum séu betur í stakk búin en ráðuneytið til að leita eftir lögbanni eða höfða dómsmál í slíkum málum.

Virðulegur forseti. Ég hef nú rakið helstu atriði frumvarpsins og legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allsherjar- og menntamálanefndar.