143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda.

351. mál
[17:30]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Þegar ég kom á þing var sú vinnuregla sett hjá okkur að við mundum að fylgjast með þeim málum sem kæmu inn í þingið sem sneru að þeim nefndum sem maður sæti í. Þess vegna reyndi ég að gera mér far um það, með litlum undirbúningi þó, að fylgjast með þessu máli og sérstaklega vegna þess að ég hafði ekki farið í undirbúninginn, einfaldlega vegna þess að ég átti að vera hér og bera fram munnlegar fyrirspurnir. En hæstv. forseti þingsins hefur breytt dagskránni og skellti því inn seint í gærkvöldi að þetta frumvarp yrði hér á dagskrá.

Ég var áðan í stuttu andsvari af því að þegar maður er að reyna að setja sig inn í svona mál þá vill maður gjarnan vita upp úr hvaða umhverfi þau spretta og hvað þau eiga að leysa. Ég gagnrýndi það að ekki væri mjög auðvelt að skilja skýringarnar í málinu og meira kjöt hefði þurft að vera á beinunum, þannig að maður gæti áttað sig betur á hvers eðlis málið væri. Ég skil mjög vel og ekkert er óeðlilegt við það að verið sé að setja inn ákveðin atriði sem tryggja viðbótaröryggi eða rétt, eins og í þessu tilfelli, félagasamtaka til að koma inn á og fylgja eftir hvað varðar dómsmál sem snerta neytendamál. Við eigum auðvitað að setja reglurnar áður en nauðsyn er orðin á þeim, en að öðru leyti ætla ég ekki að gagnrýna lagafrumvarpið, þvert á móti held ég að það geti orðið til bóta, en ég kvarta yfir því að það skuli vera sett fram með þessum hætti.

Það væri í sjálfu sér gaman að lesa það upphátt að hluta til. Ef maður les innganginn í athugasemdum við lagafrumvarpið þá ætti það að vera að skýrara hvað verið er að leggja fram. Það er eiginlega stórkostlegt að lesa það því að þar stendur, með leyfi forseta, og ég er að hugsa um að lesa þetta hreinlega upphátt:

„Inngangur.

Frumvarp þetta er samið í innanríkisráðuneytinu. Með því eru lagðar til breytingar á lögum nr. 141/2001, um lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda, með síðari breytingum. Breytingar þessar eiga að mestu leyti rætur að rekja til ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 35/2010, frá 12. mars 2010, um breytingu á XIX. kafla viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn. Með þeirri ákvörðun var tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/22/EB, frá 23. apríl 2009, um setningu lögbanns til verndar hagsmunum neytenda, felld inn í samninginn. Ákvörðun nr. 35/2010 var birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 35, 10. júní 2010, bls. 38. Tilskipun 2009/22/EB var birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 10, 24. febrúar 2011, bls. 217.“

Nú á ég sem þingmaður að segja: Aha, það er þetta sem málið snýst um. Það stendur náttúrlega ekkert þar um hvað þetta er. Það þarf að fara í mikla bakgrunnsvinnu. Það hefði þurft að draga fram í meginatriðum hvað væri verið að setja fram. Þá fer maður inn í þriðju skýringuna í athugasemdum við lagafrumvarpið.

Þar stendur, með leyfi forseta:

„Með frumvarpinu eru lagðar til þrenns konar breytingar á lögum nr. 141/2001.

Í fyrsta lagi er lagt til að í stað þess að þær EES-gerðir, sem falla undir viðauka við tilskipun 2009/22/EB, sé að finna í lögunum sjálfum, muni ráðherra gefa út reglugerð þar sem listann er að finna.“

En það stendur ekkert um listann, það stendur ekkert um hvað á að breytast ef einhver áform eru um það að breyta þeim lista.

Aftur að beinni tilvitnun í sama kafla um meginefni frumvarpsins í athugasemdum við lagafrumvarpið, þar stendur, með leyfi forseta:

„Í öðru lagi er lagt til að tilvísunum til tilskipunar 98/27/EB sé breytt í tilskipun 2009/22/EB.“

Það er þá væntanlega verið að færa til, uppfæra miðað við nýrri samþykktir. Ekkert er heldur um það hvert efnið er í því.

„Í þriðja lagi er lagt til að horfið sé frá því að ráðuneytið, sem fer með lögin í samræmi við forsetaúrskurð um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, geti leitað lögbanns eða höfðað dómsmál fyrir yfirvöldum eða dómstólum hér á landi eða í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu.

Nánar er gerð grein fyrir efnisatriðum í athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins.“

Enn er ég ekki kominn að því í meginatriðum hvað verið er að fjalla um og sleppti ég þó öðrum kaflanum, þ.e. tilefni og nauðsyn lagasetningar, þar sem fjallað er um svokallaða kerfisbindingu og skýrt út hvað hún þýðir o.s.frv. Laust og fast skil ég þetta þannig að verið sé að fjalla um að heimila öðrum aðilum — og færð fyrir því rök að það sé skynsamlegt — en ríkinu að fara í dómsmál til að verja réttindi neytenda í einhverjum tilfellum. Ég lýsi yfir stuðningi við það, mér finnst skynsamlegt að gera sér grein fyrir því að ríkið er ekki alltaf besti aðilinn bæði til að standa vaktina eða til að leita réttinda hvað varðar einstök mál.

Þá fer maður að velta fyrir sér: Hverjir eru það þá sem hafa þann rétt að gegna því hlutverki fyrir ríkið og hver ákveður það? Og þá kemur það fram í skýringum, m.a. við 3. gr., að ráðuneytið geti leitað lögbanns eða höfðað dómsmál, fyrir yfirvöldum eða dómstólum o.s.frv., til að vernda heildarhagsmuni neytenda. Sagt er að þetta sé í samræmi við hinar og þessar samþykktir. Síðar segir:

„Þá eru slík stjórnvöld og samtök betur í stakk búin en ráðuneytið til að leita eftir lögbanni eða höfða dómsmál í slíkum málum.“

Gott og vel. Ég tek undir að skynsamlegt geti verið að það séu ákveðin samtök. Vísa ég aftur í skýringar við 3. gr., með leyfi forseta:

„Þá ber ráðherra að tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA um nafn og tilgang samtaka sem hann útnefnir samkvæmt þessari grein.“

Þá erum við komin að því sem vantar líka og verður að koma til umfjöllunar í hv. allsherjar- og menntamálanefnd, það eru forsendurnar sem menn ætla að gefa sér fyrir þeim lista sem á að skila opinberlega til að gæta hagsmuna neytenda með þau markmið í huga að þeir geti leitað fyrir dómstóla með tilstilli ríkisins.

Auðvitað hlýtur að verða að ganga út frá því að þetta sé ekki ákvörðun ríkisins hverju sinni, vegna þess að ef það væri þannig þá væri ríkið að setja sig í þá stöðu að nánast viðurkenna félög jafnóðum og geta þá verið með einhverjar skoðanir á því hvort þau séu sátt við það hvernig málið fer fram af hálfu viðkomandi félaga eða ekki. Þá er ekki verið að styrkja neytendur gagnvart ríkisvaldinu og stofnunum, heldur er þá eingöngu verið, ja, ég veit ekki hvað, að láta félög leppa eitthvað sem ríkið er að leggja fram. Tilgangurinn hlýtur að vera sá að styrkja stöðu neytenda og efla stöðu þeirra til að gæta hagsmuna í neytendamálum.

Ég vil taka fram að ástæðan fyrir því að ég fór í ræðu var sú að ég tók sem ráðherra við máli sem var einmitt umfjöllun um þriðja geirann og hlutverk hans í íslensku samfélagi. Með þriðja geiranum á ég við félög sem gegna því hlutverki að gæta hagsmuna ákveðinna hópa í landinu, oftast að eigin vali en mörg hver hafa starfað til langs tíma. Og það sem hafði meðal annars komið upp í sambandi við umræðuna um þriðja geirann var réttarstaða þeirra gagnvart skattlagningu. Þetta kom meðal annars út frá því að við getum verið með sterkar hreyfingar og félög sem borga virðisaukaskatt og ýmis gjöld af söfnunarfé sínu eða efni til söfnunar sem síðan gætir hagsmuna viðkomandi stofnana eða einstaklinga sem heyra undir viðkomandi samtök. Þá varð niðurstaðan sú að til yrðu sameiginleg samtök fyrir þriðja geirann, ég man ekki hvað þau heita, sem sagt félag sem sameinar þá aðila sem eru að berjast fyrir hagsmunum þessara samtaka.

Á þeim tíma stóð til að setja lögin inn undir hjá félags- og tryggingamálaráðuneytinu en var svo vísað til iðnaðar- og efnahagsráðuneytis, ef ég man rétt, sem var falið að ljúka málunum einmitt út af þessum skattalega hluta. En eiginlega er alveg ljóst að það verður að búa til þennan lista og klára skráningu á þeim félögum, sem er þá viðurkenning á því að ríkið leggur þeim eitthvað til, hjálpar þeim til að gegna því hlutverki að gæta hagsmuna neytenda. Við getum verið að tala um það sem ríkið þarf kannski ekki að leggja mikið til en getur verið gríðarlega öflugur hagsmunahópur, þ.e. launþegasamtökin sem geta haft það hlutverk að gæta hagsmuna neytenda gagnvart ríkinu eða gagnvart stofnunum eða öðrum sem eru að sækja á varðandi réttindi. Við getum verið að tala um Neytendasamtökin, eins og hér var nefnt, eða aðra slíka aðila sem vinna að neytendamálum. Við getum nefnt umhverfissamtök, náttúruverndarsamtök, sjúklingasamtök, samtök heimila, mannréttindasamtök, sum þeirra gæta hagsmuna fólks hvað varðar mannréttindalöggjöfina o.s.frv.

Allt þetta finnst mér skipta miklu máli og að það sé þá formgert með einhverjum hætti, líka til að verjast því að oft er það nú þannig að í svona félögum fer einhver í fýlu og stofnuð eru ný samtök og þau koma, kannski vikugömul eða hálfsmánaðargömul, með kröfugerðir. Hafa þau þá sömu réttarstöðu og önnur viðurkennd samtök sem hafa skapað sér stöðu í samfélaginu? Þess vegna finnst mér mikilvægt, ef hæstv. ráðherra er ekki tilbúinn að svara því núna, að því verði svarað strax þegar málið verður lagt fyrir hv. allsherjar- og menntamálanefnd, þ.e. hvaða hugmyndir hæstv. ráðherra hefur um hvaða félög þetta verða og hvaða kröfur verða gerðar til viðkomandi félaga þannig að þau geti haft þá stöðu að vera á lista hjá EFTA yfir nöfn, og með skilgreindum tilgangi samtaka sem hafa það hlutverk að geta höfðað dómsmál í samráði við ríkið til að verja ákveðna hagsmuni fyrir hönd neytenda.

Ég held að miklu skipti að við skoðum þetta vel og að við fáum aðeins betri greinargerð frá ráðherra um hvernig þessi lög hafa hingað til nýst, hvaða ágallar hafa verið á þeim og hver staðan er. Ég fagna því að settur er niður starfshópur sem á að fjalla um neytendamálin, sem hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir hefur tekið að sér að leiða. Eitt af því sem er hvað veikast í íslenskri stjórnsýslu, að mínu mati, er réttur neytenda. Einhvern veginn hefur okkur fundist að mörg þeirra félaga sem gæta hagsmuna neytenda, oft gegn ríkinu, séu til óþurftar í samfélaginu. Ég er algjörlega ósammála því, ég held að þau gegni gríðarlega miklu hlutverki, hvort sem það eru Neytendasamtökin, umhverfissamtök, sjúklingasamtök eða önnur samtök sem eiga að standa vaktina og gegna hlutverki sem ríkið mun aldrei ná utan um eðli máls samkvæmt.

Ég er í rauninni kominn í þessa umræðu til að vekja athygli á þessu og kalla eftir því að þetta komi með til nefndarinnar, ítarlegar upplýsingar, þannig að við getum fengið vandaða umfjöllun um málið. Ég held að það skipti miklu að frumvörpin séu vel úr garði gerð vegna þess að einmitt í 1. umr. þarf umræðan að eiga sér stað. Málið fer núna til nefndarinnar, það verður sent út til umsagnar og eftir því sem við fáum betri og ítarlegri umræðu í þinginu þegar málið fer til nefndar, þeim mun betri verður umfjöllunin í nefndinni ef þingmennirnir koma athugasemdum á framfæri. Auðvitað koma svo athugasemdir frá hinum og þessum aðilum, en það er líka mikilvægt að við getum vakið athygli ákveðinna aðila á því að þeir hafi rétt á að vera umsagnaraðilar, eins og raunar allir einstaklingar í landinu, allir íbúar landsins, þeir eiga auðvitað allir rétt á að skila inn umsögnum, en að menn geti þá fengið við 1. umr. þá upplifun: Já, þetta er mál sem mig langar að skipta mér af og hafa skoðanir á og senda inn umsögn um til viðkomandi nefndar.

Ég læt þessu lokið. Ég vona að ég hafi vakið athygli á því að við viljum gjarnan fá ítarlegri frumvörp eða betri skýringar og skilgreiningar á því sem hér á að fela ráðherra. Hvað felst í því sem ráðherrann á að fara að gera og hver er staðan á þessum málum, svo að við séum ekki að samþykkja að afsala okkur málinu og vita ekki hvaða réttindi fylgja því að ráðherra fær það til afgreiðslu?