143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda.

351. mál
[17:51]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ja, nú versnar í því, álitamálunum og spurningunum fjölgar eiginlega við hvert andsvar eða þá ræðu sem flutt er, þannig að það er greinilegt að verkefnið er miklu stærra en ég lét mér detta í hug þegar ég fór af stað í þessa umræðu.

Ég hafði nú ekki hugsað það þannig að ráðuneytinu mundi verða ýtt til hliðar en aftur á móti fannst mér ábendingin vera í þeim anda að oft væri betra og eðlilegra að aðrir aðilar færu fram. En ég hafði skilið það þannig að það yrði þá að skilja á milli þannig að ráðuneyti sendi ekki fólk fram á völlinn heldur tryggði hreinlega að menn gætu sótt rétt sinn og að þeim væri hjálpað til þess.

Nú er hv. þm. Árni Þór Sigurðsson kominn lengra en ég og farinn að lesa upp samtök sem væntanlega eru tilgreind í eldri samþykktum, ef ég skil rétt. Ég verð að viðurkenna að listinn er ansi stuttur miðað við það hvað maður getur séð fyrir sér, þ.e. hvaða aðilar gætu verið að sinna neytendamálum. Það er líka rétt sem hv. þingmaður segir að búið er að sameina sumar stofnanir og leggja niður embætti talsmanns neytenda og fella það undir Neytendastofu.

Það er því greinilega margt sem þarf að skoða og það er alveg rétt að það er mjög þröng skilgreining á launþegahreyfingunni að taka bara Alþýðusambandið þar út en hafa stór samtök eins og BSRB, kennarasamtökin, BHM eða starfsmenn sem vinna hjá ríkinu. Ég held að við fáum hugsunina á bak við þetta, reynum að víkka þetta út, koma einhverjum skikki á hvaða aðilar það eru í þriðja geiranum sem við getum treyst á að hafi eitthvert hlutverk til þess að verja hagsmuni neytenda, ekki hvað síst gagnvart ríkinu og þar með líka þær stofnanir sem heyra undir og eru á vegum ríkisins, að þær geti sinnt þessu hlutverki sínu og fái það fjármagn (Forseti hringir.) sem þær þurfa til þess að sinna því.