143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda.

351. mál
[17:58]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessi svör. Ég held að við séum að minnsta kosti sammála um þann þátt málsins að félagasamtök af þessu tagi skipti miklu máli.

Ég hef áhyggjur af því að við séum vanbúin að ýmsu leyti vegna þess hversu óskýrt þetta umhverfi hefur verið. Það þarf t.d. að skilgreina og gera skýran greinarmun á opnum, frjálsum eða óopinberum félagasamtökum. Það skiptir máli hvort þau eru í grunninn byggð þannig upp að þau séu ekki rekin í ágóðaskyni; það sé t.d. skýrt. Síðan gildir þá lagarammi um það ef þau reka starfsemi í sjálfseignarstofnunum en standa á bak við þær sem félagasamtök sem stjórna þeim o.s.frv. Ég er kannski kominn út fyrir það sem þetta snýst um í þröngum skilningi, og þó ekki vegna þess að það eru akkúrat svona aðilar sem koma væntanlega til með að verða tilnefndir og vera á listum hæstv. ráðherra yfir þá sem verður fært það vald og hlutverk að fara í lögbannsaðgerðir eða reka dómsmál til að gæta hagsmuna neytenda í slíkum tilvikum.

Í sjálfu sér hef ég ekki fleiri spurningar til hv. þingmanns en bíð spenntur eftir því að heyra hvað hæstv. ráðherra hefur að færa okkur í sambandi við þær athugasemdir og spurningar sem hafa komið fram í umræðunni um þetta mál.

Fjárhagsþátturinn í þessu máli er auðvitað mjög mikilvægur þó að við séum ekki að tala um að í þessu tilviki yrðu gerðir samningar eða samtökunum falinn einhver mikill rekstur. Þó gæti verið að milljóna eða jafnvel tugmilljóna málskostnaður væri í húfi ef samtök færu í viðamikið mál til að gæta hagsmuna neytenda (Forseti hringir.) og þá væri spurning hver ætti að bera þann kostnað o.s.frv.