143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda.

351. mál
[18:00]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé alveg hárrétt hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að huga þarf að umgjörðinni í sambandi við þessi frjálsu félög okkar og félög sem gegna því hlutverki að gæta hagsmuna ákveðinna hópa. Við erum þar býsna langt á eftir, þ.e. við erum vanbúin. Það vantar regluverkið í kringum þetta og að tilgreina hvað þurfi til til þess að vera skilgreint sem slíkt félag. Hvaða réttindi fylgja því? Hvaða skyldur fylgja því varðandi skattalega umgjörð og, eins og hér kom fram, hugmyndir um að starfsemin eigi ekki að vera í ágóðaskyni o.s.frv.? Hvað með eftirlitið með viðkomandi félögum til þess að þau viðhaldi stöðu sinni sem slík?

Ég hvet hæstv. ráðherra til þess að beita sér fyrir því innan ríkisstjórnarinnar að fylgja eftir því sem okkur í fyrrverandi ríkisstjórn tókst ekki að ljúka, þ.e. lagasetningu um þriðja geirann eða þessi frjálsu félagasamtök. Ég held að þetta skipti mjög miklu máli.

Það er ástæða til að vekja athygli á því að einn helsti hvatinn að slíkri lagasetningu, eins og ég sagði í ræðu minni, var að reyna að koma skikki á það hvenær ríkið ætti að styrkja starfsemi, fella niður virðisaukaskatt vegna söfnunarátaka eða vegna gjafa á tækjum til spítala eða annars slíks. Einn aðalhvatamaðurinn var hæstv. núverandi félags- og húsnæðismálaráðherra, Eygló Harðardóttir, sem margspurði um þetta og ítrekaði í þinginu mikilvægi þess að þetta yrði gert. Því miður var málið fært frá félags- og tryggingamálaráðuneytinu. Ég segi því miður en í sjálfu sér var eðlilegt að það færi yfir í efnahagsráðuneytið. Þar er málið enn þá. Ég fékk svör við því á sínum tíma að þar væri verið að vinna að því, en því miður þá lendir það oft undir.

Dæmi um samning er þegar leitað var til Neytendasamtakanna. Félags- og tryggingamálaráðuneytið bað Neytendasamtökin að gæta hagsmuna leigjenda fyrir hönd ráðuneytisins (Forseti hringir.) og taka upp kvörtunarmál og (Forseti hringir.) gæta hagsmuna leigjenda hvað þetta varðar. (Forseti hringir.) Sá samningur er enn í gildi og sú starfsemi.