143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda.

351. mál
[18:15]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Mig langar að ganga eftir því við hann hvort hann telur að innanríkisráðuneytið í þessu tilfelli eigi ekki að vera á lista yfir svokölluð tilnefnd stjórnvöld, sem hafa þá rétt til lögbannsaðgerða í þágu heildarhagsmuna neytenda, heldur einungis að telja upp einhver tiltekin önnur stjórnvöld. Ef horft er á auglýsinguna frá 2011 þar sem tilnefnd stjórnvöld eru fimm, innanríkisráðuneytið, Neytendastofa, Lyfjastofnun, fjölmiðlanefnd og talsmaður neytenda, að teknu tilliti til þess að Neytendastofa og talsmaður neytenda hafa nú runnið saman í eina stofnun, og að innanríkisráðuneytið fer út af þessum lista, þá standa eftir þrjú tilnefnd stjórnvöld; Neytendastofa, Lyfjastofnun og fjölmiðlanefnd. Þá hlýtur maður að velta fyrir sér hvort þetta tryggi nægilega vel hagsmuni neytenda, því að þessu til viðbótar eru síðan fjögur samtök tilnefnd; Neytendasamtökin, Félag íslenskra bifreiðaeigenda, Alþýðusamband Íslands og Hagsmunasamtök heimilanna. Maður hlýtur að velta fyrir sér, eru þeir aðilar sem þarna eru tilnefndir fulltrúar fyrir alla neytendur í landinu? Er þetta nægileg neytendavernd í sjálfu sér?

Eins og ég nefndi í andsvari við annan hv. þingmann áðan, launþegahreyfingin er hérna með Alþýðusambandið en hvað með alla aðra sem ekki eru innan Alþýðusambandsins? Hvað með samtök aldraðra? Hvað með námsmannahreyfingar? Maður hlýtur að velta fyrir sér hvort ekki sé verið í raun og veru að skerða vernd tiltekinna hópa í samfélaginu með því að afgreiða þetta með þeim hætti sem lagt er upp með í frumvarpinu.