143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda.

351. mál
[18:19]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessi svör. Það sem ég er aðallega að horfa á er að ég hef litið á það þannig að fyrir utan þær sértæku undirstofnanir sem eru tilgreindar í gildandi auglýsingu og fyrir utan þau samtök sem eru tilnefnd, þá hefði ráðuneytið í raun getað verið einhvers konar regnhlíf fyrir aðra í því að gæta hagsmuna Íslendinga sem falla kannski ekki undir þá aðila sem þarna er rætt um. Það sem ég óttast er að einhverjir falli milli skips og bryggju við þær breytingar ef ekki er sett undir alla þessa leka. Það er aðallega það sem ég hef áhyggjur af og er að vekja athygli á að þyrfti með einhverju móti í vinnu þingnefndarinnar að fara í gegnum. Eru einhverjir sem verða lakar settir við þessa breytingu?

Nú þekki ég ekki hvernig þetta hefur verið nákvæmlega í framkvæmd og hvort reynt hefur á þetta með einhverjum slíkum hætti en ég tel að þingnefndin þyrfti þá að fara yfir það. Eru einhverjir sem verða út undan? Á þetta að verða víðtækara? Hvað með rétt einstaklings ef hann telur að hagsmunir hans séu fyrir borð bornir og getur sýnt fram á aðild að málinu, að hans dæmi hafi almenna skírskotun? Hefur hann þá ekki rétt eins og menn hafa öllu jöfnu rétt til að láta reyna á réttaróvissu fyrir dómstólum, eigi menn aðild að máli eða geti sýnt fram á lögmæta aðild að máli?

Þetta eru nú bara vangaveltur af minni hálfu, það er ekki þannig að ég hafi einhvern stórasannleik fram að færa í málinu, ég er aðeins að velta upp hlutum sem mér finnst að þurfi að fara vel yfir í þingnefndinni.