143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda.

351. mál
[18:22]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki heldur með mikinn stórasannleik í þessu máli en get þó fært það fram sem hugmynd að ég tel að hugtakið stjórnvöld á sviði neytendamála nái utan um þau tilvik þar sem um er að ræða einstaklinga sem þyrftu að leita réttar síns, en þá segi ég aftur: Hvar er umgjörðin að öðru leyti utan um það að þau stjórnvöld geti nýtt sér þetta tæki? Er búið að hvetja þau sérstaklega til þess? Er búið að búa til ábendingaleiðir fyrir einstaklinga til að koma málum á framfæri við stjórnvöld á sviði neytendamála þannig að það komi einhvers staðar fram að borgararnir eigi þennan möguleika? Og hvað félagasamtökin varðar, hvaða skilyrði þurfa félagasamtök að uppfylla til að komast í himnaríki, ef svo má að orði komast, og fá útnefningu á þennan útvalda lista? Hvaða skilyrði þarf að uppfylla? Og er ekki sjálfgefið og eðlilegra að þau skilyrði séu skilgreind í samhengi við heildarlöggjöf um almannaheillasamtök þannig að allt sé þar undir? Ef svo er ekki þá hlýtur ráðuneytið í dag að fara eftir einhverjum viðmiðunum þegar horft er á þetta og það er þá einhvers konar ígildi löggjafar um almannaheillasamtök.

Það er mikilvægt að fá að vita hver þau viðmið eru sem ráðuneytið beitir í því tilviki.