143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

417. mál
[18:43]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir kynninguna á þessu frumvarpi. Mig langar að beina nokkrum fyrirspurnum til hæstv. ráðherra.

Í fyrsta lagi er það varðandi svona lagasetningu almennt. Er það venjuleg gangurinn að kirkjuþingið kemur með tillögu sem fer til ráðuneytisins og þaðan til Alþingis, þannig að í raunveruleikanum sé lagasetningarvaldið að einhverju leyti hjá kirkjuþinginu?

Í öðru lagi er augljóst að þarna er verið að styrkja kirkjuþingið. Mig langar að heyra um tilefnið frá hæstv. ráðherra. Hver er ástæðan fyrir því að þessar breytingar eru gerðar?

Í þriðja lagi er talað um að heildarlagasetningin hafi strandað, hún hafi staðið til og verið í undirbúningi í langan tíma. Átti innanríkisráðuneytið aðild að þeirri endurskoðun og hver er þá ástæðan fyrir því að málið hefur ekki komist lengra?

Í fjórða lagi er það stóra spurning um stjórnarskrána. Það er dálítið athyglisvert að hér er sagt í athugasemdum við lagafrumvarpið, í IV. lið, með leyfi forseta:

„Að mati ráðuneytisins eru breytingar þessar ekki í andstöðu við ákvæði í stjórnarskrá er lúta að þjóðkirkju eða trúfrelsi í landinu.“

Mig langar að heyra rökstuðninginn. Hvað kom til álita þegar menn settu þessa setningu sérstaklega inn?

Í fimmta lagi er verið að fella niður úrskurð um kærunefndir, að því er mér virðist fyrst og fremst í sparnaðarskyni. Hvert fer þá ágreiningurinn? Það er talað um að setja reglur en er þá einhver útfærsla á því hvert sá ágreiningur fer? Þetta eru að vísu margar spurningar en þær koma kannski betur fram síðar í umræðunni og því væri ágætt í upphafi að heyra beint fyrstu svör hæstv. ráðherra við þeim vangaveltum.