143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

417. mál
[18:45]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki alveg hvort mér gefst rúm til að svara þessu öllu í svo stuttu andsvari en mun þá reyna að gera það þegar ég dreg umræðuna saman í lokin.

Það er hárrétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni að kirkjuþing hefur ákveðna frumkvæðisskyldu og frumvarpið er unnið þar að hluta til. Kirkjuþing hefur haldið utan um þetta verkefni, endurskoðun laganna. Síðan var það samþykkt á kirkjuþingi og með aðkomu innanríkisráðuneytisins var svo undirbúið það frumvarp sem liggur fyrir. Það er vegna þess að samkvæmt lögum hefur kirkjuþing ákveðið frumkvæði að því að koma slíku til ráðherra, eins og ég geri ráð fyrir að þingheimur þekki.

Ástæður breytinganna eru, eins og ég rakti í ræðu minni áðan, að frá árinu 2007 hefur verið vinna í gangi við endurskoðun laganna í heild sinni. Ég ætla ekki að fella neina dóma um hvers vegna það hefur tekið kirkjuþing lengri tíma en ætla mátti. Það er sagt í greinargerð frumvarpsins að vinnan sé umfangsmeiri en menn hafi hugsanlega áttað sig á og þess vegna taki verkefnið lengri tíma. Því var það samþykkt af kirkjuþingi nú síðast að vísa þessum breytingum til þingsins og óska eftir því að þær yrðu gerðar á lögunum þrátt fyrir að ekki hafi náðst að taka það lengra að þessu sinni.

Hvað varðar ágreining er lýtur að þeim starfsreglum sem miðað er við að setja upp vegna kirkjuaga innan þjóðkirkjunnar, eins og það er kallað, eru það ákveðnar starfsreglur sem kirkjuþing mundi setja. Hluti af því, eins og kemur fram í greinargerð, getur komið til kasta biskups, annað getur komið til kasta kirkjuþings. Eins og kemur mjög skýrt fram í greinargerð frumvarpsins, sem ég ætla ekki og hef ekki tök á að lesa upp nákvæmlega, þá er þetta gert og er að mati kirkjuþings öflugri leið (Forseti hringir.) og reynslan af áfrýjunarnefndinni og úrskurðarnefndinni sem verið hefur í gangi er sú að heilladrýgra sé að vinna þetta svona.