143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

417. mál
[19:21]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég verð að segja að í þessu tilviki finnst mér enn skorta á rökstuðninginn í frumvarpinu til fulls til að maður geti með fullu og öllu tekið afstöðu til þeirra réttmætu sjónarmiða sem hv. þingmaður færir fram. Ég kaupi út af fyrir sig skýringuna að það hafi verið óljóst hvaða mál féllu undir þessar nefndir og þær hafi ekki verið sérlega skilvirkar og að af þeirri ástæðu væri ástæða til að leggja þær af. Á móti kemur hins vegar að undir úrskurðarnefndina hafa fallið mál sem meðal annars lúta að því hvort starfsmaður þjóðkirkjunnar hafi verið borinn sökum um siðferðis- eða agabrot. Við höfum á síðustu árum dæmi, sorglegt dæmi, um slíkt og þessar úrskurðarnefndir hafa því verið nýttar á síðustu árum. Þess vegna finnst mér erfitt að sjá lagaákvæði og frumvarp sem felur í sér að þær séu lagðar af án þess að það sé á skýran hátt útfært hvernig agavald biskups geti komið í stað, því að við vitum alveg að komið hefur til kasta úrskurðarnefndanna í mjög viðkvæmum málum á síðustu árum og þær hafa skipt máli. Það er mikilvægt fyrir okkur þess vegna og ég hvet nefndina til að afla upplýsinga um það hvernig menn sjá þetta fyrir sér.

Enn og aftur: Samband þjóðar og þjóðkirkju, samband þings og kirkju, felst auðvitað í því að við verðum að fylgjast að í því verkefni að búa til góða umgjörð utan um þjóðkirkjuna og við getum ekki (Forseti hringir.) tekið við málunum órökstuddum eða óútfærðum hingað í þingið.