143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

417. mál
[19:24]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir þetta með hv. þingmanni. Mér finnst að reynslan eða sagan eigi að segja okkur að fara mjög varlega í þessum efnum. Eins og hv. þingmaður nefndi eru dæmi um það úr nánasta umhverfi okkar, úr þjóðkirkju okkar, á undanförnum árum. Við höfum líka séð dæmi um það í löndunum í kringum okkur og annars staðar að komið hafa upp atvik þar sem kirkjan hefur þurft að taka á málum sínum og oft við mjög erfiðar aðstæður. Það er ekki hægt að halda því fram að það hafi alltaf og í öllum tilvikum verið vel staðið að þeim málum af hálfu yfirstjórnar kirkjunnar, og þá er ég ekki endilega eða sérstaklega að horfa hingað, heldur meira á almennum nótum. Ég hefði haldið að einhvers konar úrskurðarnefndir eða áfrýjunarnefndir gætu skipt máli og það að verksvið þeirra hafi verið ekki nægilega vel skilgreint eða afmarkað eða að það spari einhverja fjármuni að leggja þær af þykja mér ekki nægilegar röksemdir fyrir breytingunni. Mér finnst að koma þurfi fram sterkari röksemdir fyrir því og hvernig, má segja, er sett undir aðra leka og hver réttarstaða manna er sem geta þurft að leita til þessara áfrýjunarnefnda. Eða er yfirstjórn kirkjunnar, og þar með talinn biskup, gerður greiði með því að fá mál sem ella gæti heyrt undir nefndir af þessum toga einhvern veginn í fangið að glíma við?

Þetta eru sjónarmið sem ég hefði viljað leggja inn í þessa umræðu og heyra viðhorf hv. þingmanns til.