143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

417. mál
[19:42]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það skýrir ágætlega skilning hans á þessu, ég vildi aðeins vekja athygli á því sem segir í greinargerð um málið, en ég skil hvað hann er að fara með þessu.

Hitt atriðið sem ég vildi gera að umtalsefni og ég gerði að umtalsefni áðan líka er það sem þingmaðurinn kom síðan inn á undir lok ræðu sinnar og varðar úrskurðarnefnd og áfrýjunarnefnd. Ég heyrði að hv. þingmaður bar fram fyrirspurn til hæstv. ráðherra í því efni.

Ég er mjög sammála þeim sjónarmiðum sem komu fram í máli hv. þingmanns, að það þarf að liggja alveg fyrir hvernig farið er með þau mál sem hafa, að minnsta kosti hingað til, átt að heyra undir þær nefndir þannig að ekki verði eitthvert gat í löggjöfinni. Ég orðaði það þannig áðan að ég væri ekki viss um að þeim sem gegna æðstu embættum innan kirkjunnar sé greiði gerður með því að fá þetta einhvern veginn í fangið, það er það sem virðist vera að gerast með frumvarpinu, fyrir utan þau sjónarmið sem hv. þingmaður gat um að það getur verið að ágreiningsmálin varði einmitt æðstu yfirstjórn kirkjunnar. Er hún þá í færum til að taka á þeim málum sjálf? Það er enginn dómari í eigin sök eins og sagt er. Mér þykja þetta vera álitamál sem þarf að skoða mjög rækilega í nefndinni.

Mig langar að heyra hvort þingmaðurinn hefði einhver sjónarmið um það hvernig þessum málum ætti að vera fyrir komið ef ekki með úrskurðarnefnd og áfrýjunarnefnd eins og verið hefur. Hvernig ætti með öðrum hætti að koma þeim málum fyrir? Hefur hann séð fyrir sér einhverja lausn í því, eða bíður hann eftir svörum frá hæstv. ráðherra eða hugsanlega eftir frekari vinnu í nefnd?