143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

417. mál
[19:44]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þessar spurningar eru lykilspurningar sem varða réttindi þeirra sem starfa innan þjóðkirkjunnar. Í þessum efnum hræðir reynslan. Ég ætla ekki að rifja upp mál fortíðarinnar en það eru dæmi um að ágreiningsmál hafa risið út af æðstu mönnum þjóðkirkjunnar. Við verðum að vera meðvituð um það.

Þess vegna þarf það að liggja skýrt fyrir með hvaða hætti og hver það er sem sér um að framfylgja reglum. Engin mannanna verk í formi reglusetningar eru þannig að þau séu ekki orpin undir einhvern vafa.

Ég tek skýrt fram eins og ég sagði í ræðu minni áðan að ég er ekki að leggjast gegn þeirri breytingu sem felst í brottfalli nefndanna ef skýrt liggur fyrir hvernig á að skapa farveg fyrir lausn erfiðra mála sem varða aga og annað sem kann að skapa ágreining þegar menn leggja fram úrlausn þeirra. Ein leið gæti auðvitað verið sú að við nálgumst þetta alveg eins og við nálgumst aðgreiningu valdþáttanna í samfélagi okkar innan stjórnskipunarinnar. Hægt er að hugsa sér það þannig að kirkjuþingið búi til reglurnar eins og segir í 1. gr. Kirkjuráðið sjái um framfylgd þeirra og eftir atvikum túlkanir ef kemur upp ágreiningur um reglurnar. Í þriðja lagi mætti svo hugsa sér að sá sem sætir úrskurðinum frá kirkjuráði en er ekki ánægður með hann geti skotið því til biskups. Ef málið varðar biskup á einhvern hátt hlýtur væntanlega að vera hægt að leysa það með því að skipa setubiskup, staðgengil hans í því tiltekna máli. Þetta er ein leið, hugsanlega besta leiðin. En þetta er ekki alveg skýrt samkvæmt (Forseti hringir.) frumvarpinu.