143. löggjafarþing — 79. fundur,  24. mars 2014.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

417. mál
[19:46]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er nokkuð sammála því sem fram kom í máli hv. þingmanns, þ.e. að greinin um að færa fjárráðin til kirkjuþings og taka þannig af öll tvímæli um það hverjir ráða þar ráðstöfun fjármuna, sé megingreinin í frumvarpinu. Síðan eru það 1. og 2. gr. sem eru um áfrýjunar- og úrskurðarnefndir sem hv. þingmaður man ekki eftir að hafi komið upp í einhverri virðulegri samstarfsnefnd sem hann situr í.

Hv. þingmaður er nú miklu eldri en ég í starfi hér á Alþingi og þekkir þetta betur en ég velti fyrir mér: Hæstv. innanríkisráðherra ber að leggja fram frumvarp ef kirkjuráð mælir svo fyrir, en varðandi sjálfstæði kirkjunnar og Alþingi, hvað megum við breyta miklu? Getum við bara fellt frumvarpið? Getum við breytt því? Hvert er svigrúm Alþingis í því að fjalla um þessi frumvörp?

Eftir þessa stuttu fyrstu umræðu núna þá finnst mér koma fleira fram í henni um álitamál í frumvarpinu en ég átti sannast að segja von á þegar hún hófst. Hvert er svigrúm Alþingis?