143. löggjafarþing — 80. fundur,  25. mars 2014.

störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Í Morgunblaðinu í dag er frétt þess efnis að líklegt sé að ríkið verði af 100 millj. kr. ár hvert í sköttum vegna húsnæðis sem ólöglega er leigt tímabundið erlendum ferðamönnum. Fram kemur í fréttinni að þessar upplýsingar komi frá heimildarmönnum. Einnig kemur fram að margir leigi ferðamönnum án þess að hafa til þess tilskilin leyfi og sumir gefa ekkert upp.

Gerðar hafa verið vettvangsrannsóknir til að reyna að koma í veg fyrir skattsvik í ferðaþjónustu en lítil gögn er hægt að hafa í höndunum fyrr en skattskýrslur hafa verið gefnar út.

Herra forseti. Það er staðreynd að mikil eftirspurn er eftir leiguhúsnæði víða um landið. Það heyrir maður vel í kringum sig og jafnframt kemur fram í ráðgjafarskýrslu um framtíðarskipan húsnæðismála að eftirspurnin er mikil. Skýrslan var gerð opinber á dögunum.

Ég tek heils hugar undir það sem fram kemur í skýrslu greiningaraðila um mikilvægi þess að lækka fjármagnstekjuskatt af leigutekjum þegar einstaklingar leigja út húsnæði með langtímaleigusamningi. Þannig yrði hvatt til þess að leiguhúsnæði yrði sparnaðarform hjá einstaklingum og að slík útleiga borgaði sig.

Jafnframt er það álit greiningaraðila að þetta muni hvetja til þess að eignir sem nú eru eingöngu boðnar í skammtímaleigu til ferðamanna komi inn á almennan leigumarkað. Eins og fram hefur komið er talsverður fjöldi íbúða í leigu án þess að tekjur af því séu taldar fram. Ég tel mjög mikilvægt að líta til hvetjandi þátta til að fá fleiri leiguíbúðir inn á markaðinn því að oft hefur verið þörf en nú er nauðsyn.