143. löggjafarþing — 80. fundur,  25. mars 2014.

störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Þau ánægjulegu tíðindi bárust í gær að innanríkisráðuneytið hafi snúið fyrri úrskurði Útlendingastofnunar og úrskurðað að tvær kólumbískar konur og ein stúlka hljóti dvalarleyfi hér á landi af mannúðarástæðum. Mörg okkar hér inni hafa líklega fylgst með máli kvennanna í fjölmiðlum og undrast það sem virðist vera óskiljanleg harka og ósveigjanleiki Útlendingastofnunar í þessu máli.

Margir hafa orðið til þess að tala máli kvennanna og virðist mér sem flestir fagni þessari afgreiðslu ráðuneytisins. Hún er í anda þeirrar sjálfsmyndar sem við viljum hafa sem þjóð, að við bjóðum velkomið í okkar samfélag fólk sem er í vanda statt. Almenningur á Íslandi vill sameina fjölskyldur en ekki sundra þeim og margir eiga bágt með að skilja hvers vegna stofnanir sem starfa á okkar vegum virðast ekki vinna eftir þeirri stefnu. Þótt ástæða sé til að gleðjast yfir farsælum endalokum þessa máls ætti það að vekja okkur til umhugsunar um á hvaða leið við erum í málaflokknum.

Til að komast í gegnum nálaraugað og fá hér hæli af mannúðarástæðum virðist fólk þurfa að koma málum sínum í fjölmiðla og almenningur að fyllast réttlátri reiði. Þannig eiga þeir einir möguleika sem náð hafa að koma sér upp félagslegu baklandi eða eiga einhverja þá að sem geta talað máli þeirra í fjölmiðlum.

Kjörnir fulltrúar mega í þessum málaflokk ekki fela sig á bak við embættismenn. Ég fullyrði að sú harka sem Útlendingastofnun hefur sýnt í málefnum hælisleitenda sé ekki í samræmi við óskir almennings og því ber Alþingi að taka málaflokkinn til alvarlegrar endurskoðunar.