143. löggjafarþing — 80. fundur,  25. mars 2014.

störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil beina orðum mínum til formanns atvinnuveganefndar. Auglýsingaherferð er hafin í Bandaríkjunum gegn hvalveiðum Íslendinga og gengur út á það að kaupa ekki fisk af íslenskum hvalveiðimönnum. Dýra- og náttúruverndarsamtök standa að þeim áróðri og rituðu fjölda bandarískra fyrirtækja sem kaupa íslenskar sjávarafurðir bréf skömmu fyrir stærstu sjávarútvegssýningu Bandaríkjanna sem haldin er nú í Boston. Voru fyrirtækin hvött til að sniðganga íslensk fyrirtæki sem tengjast hvalveiðum.

Fram hefur komið að matvælafyrirtækið High Liner Foods hefur ákveðið að hætta að kaupa fisk af HB Granda þar til fyrirtækið losar sig við hluthafa sem tengjast hvalveiðum, en forstjóri Hvals er stór hluthafi í HB Granda.

Við Íslendingar höfum áskilið okkur rétt til að stunda sjálfbærar veiðar samkvæmt alþjóðalögum en hagnaður af stórhvelaveiðum hefur verið lítill sem enginn undanfarin ár og erfitt hefur reynst að koma afurðunum á markað. Því vil ég spyrja formann atvinnuveganefndar hvort ekki sé rétt að endurmeta hagsmuni Íslands í því ljósi, hver raunverulegur ávinningur er af hvalveiðum í dag, og hvort vegi þyngra áframhaldandi hvalveiðar Íslendinga eða neikvæð áhrif hvalveiða á markaðssetningu íslenskra sjávarafurða erlendis og á ferðaþjónustu tengda hvalveiðum. Hvert er kalt hagsmunamat formannsins á heildarhagsmunum þjóðarinnar í ljósi þess mikla áróðurs sem er hafinn og ekki sér fyrir endann á?