143. löggjafarþing — 80. fundur,  25. mars 2014.

störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Það er ekkert nýtt undir sólinni í þessu hvalveiðimáli. Við höfum séð þær hótanir sem við stöndum frammi fyrir núna áður. Það má minnast þess hér aftur um einhverja tugi ára þegar hótanir lágu í loftinu um að fisksölukeðjan Long John Silver mundi ekki kaupa íslenskan fisk vegna hvalveiða okkar á þeim tíma. Hræðsluáróður hefur verið rekinn bæði hérlendis og erlendis en árangurinn hefur alltaf verið sá að lítið hefur gengið eftir. Það er alveg eins í mínum huga í þetta sinn.

Við hófum hér hvalveiðar aftur eftir nokkuð margra ára hlé árið 2003. Það er hægt að rifja upp ummæli og hástemmdar yfirlýsingar aðila í forsvari fyrir samtök sem kenna sig við náttúruvernd, aðila í ferðaþjónustu og jafnvel öðrum greinum sem sögðu að allt færi fjandans til á Íslandi, það mundi draga úr allri ferðaþjónustu, erlend samtök á borð við Alþjóðadýraverndunarsjóðinn sögðust ætla að auka hér ferðamennsku ef við mundum hætta hvalveiðum. Við stóðum auðvitað í lappirnar og héldum okkar striki og árangurinn er samkvæmt því. Hér hefur aldrei fjölgað eins mikið í ferðaþjónustu. Allar greinar ferðaþjónustu auk nýgreina eins og hvalaskoðun ganga mjög vel og langstærstur hluti veitingastaða á Íslandi hefur hvalkjöt á matseðlinum og það eru útlendingar sem kaupa.

Hagnaður er enginn, segir hv. þingmaður, og það er erfitt að koma þessu á markað. Hver segir það? (LRM: Tölur.) Hvaða tölur segja það? Ég bið hv. þingmann að nefna þær og koma með þær. Hér eru búnar að vera hvalveiðar og allar afurðir hafa mér vitanlega selst. Héðan var verið að skipa út 2 þús. tonnum í síðustu viku sem fara í beina siglingu til Japans.

Svokölluð náttúruverndarsamtök hafa verið að hóta skipafélögum allri óáran. Ég hef sagt að það jaðri við hryðjuverkastarfsemi hvernig (Forseti hringir.) þau stunda vinnubrögð sín, í það minnsta er það atvinnurógur og mjög alvarlegur rógburður (Forseti hringir.) að hvalveiðar hafi neikvæð áhrif á ferðaþjónustu. Hver er ávinningurinn? (Forseti hringir.) Hver dæmir um það hvort hvalveiðar hafi (Forseti hringir.) haft neikvæð áhrif á ferðaþjónustu hér? (Forseti hringir.) Er eitthvað sem bendir til þess? Ég bið fólk að halda (Forseti hringir.) sig við staðreyndir máls. Sannleikurinn (Forseti hringir.) er sagna bestur. (Gripið fram í.)

(Forseti (EKG): Forseti biður hv. þingmenn að virða tímamörk.)