143. löggjafarþing — 80. fundur,  25. mars 2014.

störf þingsins.

[14:09]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Eftir því sem ég kemst næst eiga heimsmet forsætisráðherra að hafa verið afgreidd út úr ríkisstjórn í morgun, frumvörp sem varða skuldavanda heimilanna og lækkun á höfuðstól verðtryggða skulda. Ég kem hingað upp til að brýna stjórnarliða í þingsal.

Í stjórnarsáttmála flokkanna er talað um að jafnræðis skuli gætt gagnvart verðtryggðum lánum. Kannski hefur menntamálaráðherra tekið tillit til orða minna hér fyrr í vetur og það væri þá ánægjulegt en ég bið stjórnarliða að huga sérstaklega að því þegar þeir fá þessi mál inn í þingflokka til sín hvort þar sé verið að leiðrétta verðtryggðar lánasjóðsskuldir til að gæta jafnræðis gagnvart verðtryggðum skuldurum þessa lands og ef það er ekki sjái þau til þess að staðið verði við loforð um jafnræði. (SigrM: Er ekki rétt að bíða eftir frumvarpinu?)

Herra forseti. Hér grípur þingflokksformaður Framsóknarflokksins fram í. Ég er einmitt að hvetja hana og hennar fólk sem og sjálfstæðismenn hér í salnum til að horfa sérstaklega til þessa atriðis þegar þau skoða frumvörpin og samþykkja framlagningu þeirra. Ég bið þingmenn að hafa í huga að sniðganga ekki einn hóp skuldara, þann sem hefur ákveðið að fjárfesta í menntun á verðtryggðum lánum.