143. löggjafarþing — 80. fundur,  25. mars 2014.

menningarsamningar.

[14:28]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. málshefjanda, hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur, fyrir að hefja þessa umræðu og sömuleiðis hæstv. ráðherra fyrir að taka þátt í henni.

Ég sé svolítið skýrt mynstur í þessu máli að dregið hefur verið úr einhverju sem allir virðast þó vera sammála um að sé mjög jákvætt. Hér virðist enginn ágreiningur vera um það að menningarsamningarnir séu bæði mikilvægir og hafi verið vel heppnuð stjórnvaldsaðgerð, eins og hæstv. ráðherra sagði í lok ræðu sinnar.

Reynslan er farsæl. Stjórnvaldsaðgerð sem er vel heppnuð skapar auðvitað vinnu, skapar menningarverðmæti, hjálpar ferðaþjónustunni eins og flest slíkt, eins og við þekkjum, en samt er skorið niður í málaflokknum. Ég velti fyrir mér hvers vegna. Hvers vegna er skorið niður í þessu ef þetta svona vel heppnað? Ég skil það ekki.

Hvað varðar tafirnar ætla ég að leyfa hæstv. ráðherra bara að útskýra það þar sem svo margir hafa nú þegar hafa spurt út í þær.

Fyrst og fremst velti ég fyrir mér hvað það er við þetta verkefni sem gerir að verkum að mönnum finnst skynsamlegt að skera það niður, þ.e. ef þetta er farsælt verkefni, ef verkefnið býr til atvinnu, ef gengur vel að undirbyggja atvinnuvegina á landsbyggðinni með þessu verkefni. Hvers vegna er það skorið niður? Hvers vegna er þetta fjármagn ekki látið í friði? Það er það sem ég skil ekki alveg og velti fyrir mér hvort hægt sé að fá skýrari svör við því.