143. löggjafarþing — 80. fundur,  25. mars 2014.

menningarsamningar.

[14:42]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka ágæta umræðu hér og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það stendur eiginlega út af hvað verði um þá fjármuni sem voru á hendi atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra og áttu að fara í menningartengda ferðaþjónustu. Ég geri ráð fyrir að beina þeirri spurningu til þess ráðherra sem um það vélar. Það er auðvitað spurning hvað þetta þýðir fyrir menningarverkefni úr því að verið er að taka það úr samhengi. Maður hefði vænst þess að sá máti sem hefur verið viðhafður undanfarin ár væri betri, að hafa þetta saman og heimamenn fengju um það ráðið hvert fjármagninu yrði ráðstafað í ríkari mæli. Þess vegna væri áhugavert ef hæstv. ráðherra mundi hjálpa okkur með það hvort einhverjar útskýringar væru á því að þetta hefði orðið lendingin, þótt ég átti mig á því að sú spurning eigi kannski frekar heima hjá hæstv. ráðherra sem fer með ferðamál.

Hæstv. ráðherra gerði hér tilraun til þess að skýra töfina sem orðið hefur. Hún er náttúrlega óþolandi löng. Ráðherra mátti vita að þessi staða mundi breytast um áramót. Þetta gengur ekki gagnvart öllum þeim sem eru að undirbúa sitt starf og gera ráð fyrir fjármagni til að vinna verkefnin. Við vitum þegar, virðulegur forseti, um allnokkur verkefni sem hafa verið blásin af út af þessari stöðu, verkefni í samfélögum þar sem 100 þúsundkallar skipta alveg gríðarlega miklu máli fyrir framvindu og menningarlíf í héraði.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann sjái fyrir sér þróun og framtíð menningarsamninganna, hvernig hann sjái fyrir sér styrki til menningarmála til framtíðar og loks hvernig og á hvaða grunni hann sjái sóknaráætlun koma til með að þróast í framtíðinni.