143. löggjafarþing — 80. fundur,  25. mars 2014.

náttúruvernd.

167. mál
[15:17]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða dálítið merkilegt mál því að segja má að það hafi ekki byrjað vel á Alþingi. Þegar hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra lagði fram frumvarp sitt um brottfall laga um náttúruvernd áttum við raunar ágætisumræðu þótt mér þætti það frumvarp ekki gott. Þá kom strax fram í umræðunni af hálfu hæstv. ráðherra að þarna hefðu verið tveir valkostir að hans mati, annars vegar að leggja það til að lögin féllu brott og hins vegar að lögunum yrði frestað enn um sinn og þau skoðuð nánar.

Hæstv. ráðherra var gagnrýndur fyrir að hafa valið þann kost að leggja til að lögin yrðu felld brott en sú niðurstaða sem við ræðum hér í dag, sem er niðurstaða hv. umhverfis- og samgöngunefndar og hæstv. ráðherra hefur komið að, er í raun og veru sú að fara hina leiðina sem snýst um að fresta gildistöku laganna enn um sinn. Ég vil gera eins og aðrir hv. þingmenn sem hér hafa talað og þakka hv. þingmanni, formanni nefndarinnar, Höskuldi Þórhallssyni fyrir að hafa staðið við þau orð sem hann lét falla strax í upphafi, að hann væri reiðubúinn að taka þetta mál málefnalega fyrir, taka málið efnislega fyrir og kalla til alla þá gesti sem við vildum kalla til. Ég tel að sú efnislega umfjöllun sem nefndin hefur átt um þetta mál hafi skilað okkur áfram. Ég held að það sýni okkur, án þess að ég vilji benda neitt á aðrar nefndir því að ég veit að svona er oft unnið í þinginu, að hún skilar okkur því að við horfum fram á að geta áfram unnið saman, vonandi, að þessu máli og vonandi — vonandi segi ég — lent nýjum náttúruverndarlögum 1. júlí 2015.

Mér er það ljúft og skylt að rifja aðeins upp aðdraganda málsins. Eins og hv. þingmenn muna var þetta eitt af stóru málunum hér vorið 2013. Þá var þáverandi hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra Svandís Svavarsdóttir og lagði hún fram frumvarp til nýrra náttúruverndarlaga. Um það frumvarp spunnust talsverðar deilur en ég held að hv. þingmenn sem hafa kynnt sér til að mynda þá hvítbók sem unnin var um náttúruvernd sjái að þetta var unnið á annað hátt en við erum vön í þinginu, en það var unnið á mjög vandaðan hátt. Sú hvítbók sem lá til grundvallar, og var eins og ég segi ekki unnin á hefðbundinn hátt í vinnu í þinginu en þarna komu saman þeir sérfræðingar sem fjalla sérstaklega um náttúruna og umhverfið, er auðvitað mikill fjársjóður fyrir hv. þingmenn. Við nefndarmenn fengum eintak af þeirri bók og höfum væntanlega öll verið með hana á náttborðum okkar í vetur. Þarna er alveg gríðarlega góð og vönduð umfjöllun um þróun laga umhverfis- og náttúruverndar, bæði á Íslandi og annars staðar, og mjög góður grunnur að umræðu um þessi mál.

Eins og kunnugt er var byggt á þessari hvítbók við samningu frumvarps sem var kynnt og voru heildarlögin til umræðu á vorþinginu 2013. Það sem mér hefur þótt mikilvægast við það frumvarp sem varð svo að lögum, og það eru í raun og veru þau lög sem við erum að leggja til frestun á gildistöku á hér, er nálgunin sem er í þeim. Sú nálgun kom meðal annars fram við vinnu nefndarinnar núna, og er mjög mikil framför frá lagasmíð um náttúruvernd sem hingað til hefur verið, sem er sú heildarhugsun sem birtist í lögum um náttúruvernd og byggir á því sem er kallað í greinargerð með þeim gömlu lögum vistkerfisnálgun þ.e. að horfa heildstætt á náttúruna og umhverfi hennar. Niðurstaða nefndarinnar er að mikilvægt sé í áframhaldandi vinnu að byggja á þeirri hugmyndafræði og það finnst mér mjög mikilvægt því að þannig tel ég að við höfum fært þessa umræðu áfram. Þetta er auðvitað eitthvað sem við höfum í raun og veru þegar skrifað upp á, til að mynda í þeim alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að, og snýst um hvernig við getum náð fram samþættri stjórn á nýtingu náttúruauðlinda sem miðar að vernd og sjálfbærri nýtingu. Sú aðferðafræði grundvallast á vísindalegri þekkingu, ólíkum vistkerfum og starfsemi þeirra og þeirri vissu að hver einasti þráður í vef vistkerfisins skipti máli og sérhvert inngrip í vistkerfið geti haft áhrif á aðra fræði. Þetta er heildarhugsunin. Það sem skiptir máli í þessum lögum, þegar við fórum efnislega yfir þau, er hve markmiðsákvæðin eru skýr. Það er að sjálfsögðu algert lykilatriði við lagasetningu almennt, og um það ræddum við talsvert í nefndinni, að markmið laganna séu skýr, að markmiðsgreinar laganna skýri það sem við köllum stundum anda laganna.

Við fórum ágætlega yfir heildarefnisatriði náttúruverndarlaganna, hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur fór til að mynda ágætlega yfir þau. Ég ætla ekki að fara fyrir þau aftur en þó eru þar nokkur atriði og koma mörg hver sérstaklega fram í nefndarálitinu sem við náðum saman um. Ég vil þó rifja upp það sem mér finnst mikilvægt að benda á. Þau mál sem voru fyrirferðarmest í umræðunni vorið 2013, og þá nefni ég sérstaklega frjálsa för vélknúinna ökutækja í tengslum við utanvegaakstur, í tengslum við kortagrunn um slóðakerfi því að þegar málið var rýnt kom á daginn að þetta var ekki endilega eins stórt mál og það hafði verið í umræðunni. Ég verð að segja þetta því að ég kom þannig séð ný að málinu, ég hafði að sjálfsögðu fylgst með því sem þingmaður og ráðherra á þeim tíma en ekki sett mig inn í málið í hverju smáatriði, en mér fannst það mjög merkilegt sem fram kom í vinnslu nefndarinnar núna þegar við fórum yfir ákvæðin um utanvegaakstur og um kortagrunn, að í raun og veru er hið óformlega vegakerfi á Íslandi stærra en hið formlega. Það segir okkur aðeins um þá þróun sem hefur verið hér í utanvegaakstri. Það er mjög mikilvægt að við komum böndum á þá þróun að staðan sé sú að maður geti keyrt og myndað slóða og þar með sé kominn vegur og þar af leiðandi sé eðlilegt að næsti maður fylgi í kjölfarið.

Það kom á óvart að hið óformlega vegakerfi væri í raun stærra og lengra í kílómetrum talið en hið formlega vegakerfi. Ég segi það bara að það er mín bjargfasta sannfæring, ekki síður nú eftir að hafa farið í gegnum málið, að gríðarleg þörf er á þessum kortagrunni og gríðarleg þörf á að við náum „konsensu“ um það hvar við ætlum að keyra og hvar við ætlum ekki að keyra til að geta fylgt eftir lagaákvæðum og er auðvitað til háborinnar skammar hvernig það hefur áhrif á landslag og umhverfi í kringum okkur.

Þetta er dæmi um það hvernig mér fannst vinnsla nefndarinnar skýra ákvæði sem voru uppi í miklum reyk vorið 2013 eins og stundum vill verða þegar stórmál eru til umræðu í aðdraganda kosninga, svo merkilegt sem það nú er. Gagnrýnin sem var sett fram á lögin, fyrir utan þetta með utanvegaaksturinn og kortagrunninn, og það sem var talsvert rætt var að skilgreiningar væru ekki nægilega skýrar. Það kom líka fram í vinnslu nefndarinnar núna að hv. umhverfis- og samgöngunefnd sem fór með málið á vorþingi 2013 gerði auðvitað verulegar breytingar á skilgreiningum og kom mjög til móts við þá gagnrýni sem þar var sett fram. Það er eitt af því sem mér finnst mikilvægt, af því að okkur finnst gaman að lofa okkur sjálf og þakka okkur sjálfum allt hið góða og gríðarlega samstarf sem við höfum átt hér, að rifja líka upp að fyrri nefnd tók þetta mál mjög föstum tökum og vann mjög vel í því. Mér finnst mjög mikilvægt að halda til haga þeim frumgögnum, sem ég tel að séu alveg gríðarlegur fjársjóður eins og ég sagði, þeirri hvítbók sem hæstv. þáverandi ráðherra, Svandís Svavarsdóttir, lét vinna, vinnslu nefndarinnar þáverandi undir forustu hv. þingmanna Marðar Árnasonar og Ólafs Þórs Gunnarssonar og svo vinnslu nefndarinnar núna.

Þar sem ég er þegar hálfnuð með ræðutímann og er þó rétt í innganginum ætla ég rétt aðeins að tæpa á þeim atriðum sem við í nefndinni sameinumst um að draga hér fram. Eins og hv. þm. Katrín Júlíusdóttir fór yfir áðan sjáum við fyrir okkur að verklagið verði slíkt að hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra taki málið til sín núna og skoði út frá þessu nefndaráliti þau atriði sem eru nefnd og kynni síðan, getum við sagt, drög að breytingum fyrir nefndinni með haustinu og þar með fái nefndin þetta mál til efnislegrar umfjöllunar og geti kallað til hagsmunaaðila, náttúruverndarsamtök og aðra til að fá mat þeirra á breytingum áður en frumvarpið er lagt endanlega fram. Þetta er það vinnulag sem við höfum rætt í nefndinni og ég tel það vera okkar tilraun til að undirbúa mál á betri hátt en stundum er gert til þess að koma í veg fyrir að átökin brjótist út í þingsal.

Þau atriði sem við nefnum sérstaklega í nefndaráliti okkar eru í fyrsta lagi almannaréttur og sú umræða tel ég að hafi fengið aukið vægi eftir þær hugmyndir sem hafa komist hér á flot um svokallaðan náttúrupassa. Það vakti mjög athygli mína í sérstakri umræðu um það mál í síðustu viku að ég tel að það séu dálítið ólík sjónarmið uppi milli hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra annars vegar og hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra hins vegar. Ég gat ekki skilið hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra öðruvísi en að hann teldi mjög mikilvægt að náttúrupassi yrði ekki til að þrengja almannarétt. Við reifum hér almannaréttinn og eins og ég nefndi áðan voru hv. þingmenn þáverandi stjórnarandstöðu, núverandi stjórnarliðs, einmitt að minna á almannaréttinn í þeirri gagnrýni sem var sett fram að vori 2013. Ég held að mjög mikilvægt sé ef við erum að fara að ræða hugmyndir um gjaldtöku á næstunni að við skoðum hana út frá almannarétti. Það er auðvitað gríðarlegt áhyggjuefni ef þrengja á að þeim rétti með gjaldtöku í kringum landið, hvort sem það verður í þeim villta vesturs stíl sem við horfum upp á núna eða með atbeina stjórnvalda. En það er rétt að það má skilgreina þennan rétt betur og þau sjónarmið sem komu fram fyrir nefndinni voru að hugsanlega væri réttlætanlegt að takmarka almannaréttinn að einhverju leyti með hagsmuni náttúrunnar í huga. Það er allt annað en að vera með gjaldtökuhlið við ferðamannastaði að rukka fólk. Það er eitthvað sem ég tel eðlilegt að skoða nánar og lýtur þá til að mynda að fjöldatakmörkunum inn á svæði eða einhverju slíku.

Í öðru lagi er varúðarreglan nefnd. Það er hárrétt að við fengum ákveðnar athugasemdir við varúðarregluna. Inntak hennar er að skorti á vísindalegri fullvissu þar sem hætta er á alvarlegu óbætanlegu tjóni skuli ekki beitt sem rökum til að fresta skilvirkum aðgerðum sem koma í veg fyrir umhverfisspjöll. Þetta orðalag varúðarreglunnar er í raun dregið úr 15. meginreglu Ríó-yfirlýsingarinnar þar sem þó er oft hafður sá fyrirvari, eins og kemur fram í nefndarálitinu, að það orðalag hafi verið afrakstur málamiðlunar. Ríó-yfirlýsingin hefur haft gríðarleg áhrif á þróun umhverfisréttar en það sem við skynjuðum í þeim umsóknum sem okkur bárust var að fólk vildi sjá fyrir hvernig varúðarreglunni yrði beitt. Nú er þetta meginregla umhverfisréttar og það er spurning hvort hægt sé að skrifa hana inn í einstök ákvæði laga. Aðrar þjóðir hafa farið aðrar leiðir og eitt af því sem var bent á við umfjöllun okkar var að Norðmenn hafa sett varúðarregluna inn í stjórnarskrá.

Mér finnst rétt að nefna það hér þar sem ég nýt þeirrar gæfu og blessunar að fá að sitja í stjórnarskrárnefnd að þar ræðum við einmitt þetta. Við hyggjumst skoða hvernig varúðarreglan er í stjórnarskrá Noregs og hvort það sé eitthvað sem við eigum að taka til umræðu í tengslum við íslensku stjórnarskrána. Mér finnst mikilvægt að við hugum að því vegna þess að greinilegt er að það þarf að að minnsta kosti að skýra betur hvernig svona meginreglur eru settar fram í lögum, hvort það þurfi að skrifa inn í lögum eða hvort það þurfi að skilgreina þær nákvæmlega með reglugerð eða hvort rétt sé að þetta sé meira meginregla sem síðan er væntanlega túlkuð að einhverju leyti af dómstólum ef til þess kemur.

Í þriðja lagi eru það ákvæði um sérstaka vernd sem eru nýmæli og ákvæðin í þessum lögum, sem nú er lagt til að fresta í stað þess að afturkalla, lúta að því að styrkja greinina. Ég bendi á að þarna segir að nefndin telji að mikilvægt sé að styrkja greinina frá því sem er í gildandi lögum, enda var eitt af því sem kom til skoðunar hjá nefndinni sú úttekt sem gerð var á því hvernig ákvæði um sérstaka vernd hefði í raun og veru nýst í lögunum frá 1999 þar sem bent var á að þau hefðu engan veginn nýst á viðunandi hátt. Síðan voru gagnrýnisraddir sem sneru þá einkum af öðrum þáttum, smærri þáttum, til að mynda stærðarmörkum, votlendi og öðru slíku og þetta tel ég vera eitthvað sem við gætum væntanlega nýtt tímann til að skoða.

Ég nefndi utanvegaaksturinn áðan. Eins og kemur líka fram í álitinu hafa kannski ekki, þrátt fyrir mikla umræðu, komið fram önnur raunveruleg ráð en þau sem beitt er í lögunum. Að sjálfsögðu verður að vinna að þeim kortagrunni sem þar er kveðið á um í sem mestu samráði en ég ítreka þetta sjónarmið eftir að hafa hlustað á þá sem tjáðu sig um þetta mál og fengið þá einföldu staðreynd á borðið að hið óformlega vegakerfi sé lengra í kílómetrum talið en hið formlega, við sjáum öll að þetta gengur ekki. Það verður að gera grunn þannig að fólk hafi skýrar leiðbeiningar um hvert það eigi að fara.

Hvað varðar framandi lífverur er það er vissulega eitthvað sem ýmsum hv. nefndarmönnum fannst mikilvægt að halda til haga. Þó vil ég minna á að ákvæði laganna um framandi tegundir byggja mjög á lögunum frá 1999 og þarna erum við kannski komin með mál. Ef til vill finnst fólki í þessu hugtaki, framandi lífverur, að einhverju leyti felast gildisdómur en þetta er ekki gildisdómur heldur aðeins flokkun lífvera eftir ákveðnum uppruna og ekkert gildishlaðið við orðið framandi í þeim skilningi. Þessi ákvæði í lögunum frá 1999 eiga rætur sínar að rekja til Ríó-yfirlýsingarinnar frá 1993 og samningsins um líffræðilega fjölbreytni þannig að við höfum undirgengist ákveðnar skuldbindingar á þessu sviði. Ég veit alveg að þetta getur orðið endalaus deila þegar við ræðum um lúpínu og framandi trjátegundir. Það er eins og ég sagði í nefndinni: Þennan hnút munum við ekki leysa, þessi ágreiningur verður áfram. En við höfum undirgengist ákveðnar alþjóðlegar skuldbindingar í þessu. Við erum með ákveðið lagaumhverfi og ég tel að við eigum að byggja á því.

Þetta eru sem sagt þau atriði sem okkur fannst ástæða til að draga fram að þyrfti að skoða nánar. Þá kem ég kannski að framhaldinu og þeim fyrirvara sem ég set við álitið. Sá fyrirvari byggir á mjög einfaldri sýn. Mín skoðun er sú að lögin sem samþykkt voru vorið 2013 og áttu að taka gildi núna 1. apríl séu það mikil og stór framför frá náttúruverndarlögunum frá 1999 að þau ættu að taka gildi 1. apríl 2014, að sjálfsögðu er það mín sýn og mín sannfæring. Hins vegar skrifa ég undir nefndarálitið því að ég fellst á þau sjónarmið að við getum náð sátt, aukinni sátt um þau atriði sem ég hef farið yfir með því að setjast yfir þau og vinna þau betur. Ég er reiðubúin til að taka þátt í þeirri vinnu og stuðla þar með vonandi að því að við náum aukinni almennri samfélagssátt um þessi náttúruverndarlög, en fyrirvari minn lýtur að því að ég tel að lögin sem áttu að taka gildi 1. apríl hefðu átt að taka gildi því að þau fela í sér mjög mikla framför. Ég tel að sú skoðun mín, sem ég sýndi í verki því að ég greiddi atkvæði með lögunum vorið 2013, ég tel að ég hafi fengið aukinn rökstuðning fyrir þeirri skoðun með því að hlusta á alla þá aðila sem komu fyrir nefndina og ekki síst þá sem eru sérfróðir um umhverfisrétt og hafa bent á að í lögunum felist mjög mikil framför hvað varðar markmiðssetningu, hvernig við innleiðum þær skuldbindingar sem við höfum undirgengist á alþjóðavettvangi og hvað varðar umhverfismál. Þetta eru stórmál og stundum kölluð tilfinningamál. Ég lít ekki á þetta sem tilfinningamál en vissulega lít ég á þetta sem siðferðilegt mál, þ.e. siðferðilegt mál um hvernig við sem manneskjur umgöngumst náttúruna, hvernig lagaramma við sníðum umgengni okkar um náttúruna. Mér finnst mikilvægt að við höfum í huga þegar við förum með þetta lagaumhverfi að við gerum það eins vel og við getum. Það er ástæða þess að ég vil taka þátt í þessu samkomulagi og vil taka þátt í þessari vinnu. Mér finnst það vera okkar siðferðilega ábyrgð að reyna að ná sem bestri sátt um málið. Ég treysti því eftir þá samvinnu sem hefur verið í nefndinni og ég fór yfir í upphafi, en líka eftir að hafa kynnt mér aðdragandann, kynnt mér aðdragandann með lagasetningunni, kynnt mér hvítbókina, kynnt mér vinnu fyrri umhverfis- og samgöngunefndar, að það séu full tækifæri til þess. Ég heiti á okkur öll sem erum í þessu verkefni að við vinnum áfram af þeim hug í málinu og þá vonast ég til þess að 1. júlí 2015 verðum við komin með gott lagaumhverfi fyrir náttúruvernd í landinu, lagaumhverfi sem horfir til mikilla framfara fyrir náttúruvernd í landinu.