143. löggjafarþing — 80. fundur,  25. mars 2014.

náttúruvernd.

167. mál
[16:09]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að sitja uppi með það að tilraun mín til að gera hv. þm. Brynjar Níelsson að sósíalista heppnaðist ekki í þessari umferð, en dropinn holar steininn.

Aðeins hvað varðar gjaldtöku og uppbyggingu innviða þá minni ég á, mér og fleirum til varnar, að auðvitað var mönnum það ljóst og þegar þessi mikla fjölgun kom árin 2011, 2012, 2013 þá brugðust menn vissulega við því. Fjárveitingar voru auknar umtalsvert í gegnum Framkvæmdasjóð ferðamála með upptöku gistináttagjalds strax á árinu 2012 og myndarlega árið 2013 þegar hátt í milljarður kr. var veittur í framkvæmdir, styrki, hönnun og alls konar undirbúning fyrir úrbætur á fjölsóttum ferðamannastöðum. Því miður var svo dregið aftur úr því fjármagni verulega núna í fjárlögum þessa árs, sem er beinlínis ekki í takt við þróunina. Sjálfsagt eru menn svo að einhverju leyti að nota það sem afsökun fyrir því að fara út í þessa gjaldtöku. En sumir þeir aðilar hafa reyndar fengið opinbera fjármuni nú þegar til úrbóta. (Forseti hringir.) Ætla þeir svo líka að selja inn? Halda menn að hægt sé að gera hvort tveggja, fá peninga frá ríkinu í uppbygginguna og selja svo ferðamönnum og rukka þá? Það gengur ekki.