143. löggjafarþing — 80. fundur,  25. mars 2014.

náttúruvernd.

167. mál
[16:13]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður færði nokkuð í stílinn. Þetta var nú ekki svona dramatískt í endursögn minni og svo ég taki það alveg skýrt fram þá hefði ég ekki fallið úr hor þarna í þessu tilviki og auðvitað hefði ég getað étið urriðann ósaltan, það er í sjálfu sér ljóst. Ég get svo sem alveg viðurkennt að það var kannski ekki síður til að minna á þennan rétt minn að ég gerði það að gamni mínu að taka með mér fluguprik og veiða, eins og ég tel að ég og aðrir hafi fullan rétt til ef það er sannarlega manni til nokkurrar bjargar.

Já, hv. þingmaður. Ég stend auðvitað við þau orð sem ég lét falla í garð umhverfis- og samgöngunefndar og vinnu hennar.

Varðandi álitamálin sem reifuð eru í nefndarálitinu þá eru þau færri, leyfi ég mér að segja, en ég hefði ætlað miðað við umræðuna á sínum tíma og andrúmsloftið í kringum málið þegar það var lögtekið hér í fyrra og eins og ýmsir töluðu þá, en þetta eru vissulega veigamikil atriði, það er rétt. Ég geri ekkert lítið úr því að varúðarreglan og utanvegaaksturinn og fleira í þeim dúr, og ég tala nú ekki um almannaréttinn, eru veigamikil atriði, það eru veigamikil mál. En mér sýnist að álitamálin sem reifuð eru í kringum þetta séu meira lagatæknilegs eðlis en að þau endurspegli endilega mikinn efnislegan ágreining. Ég leyfi mér að túlka það þannig. Menn komust að þeirri niðurstöðu að lögfesta skyldi varúðarregluna, en það verður að vanda hvernig það er gert og skoða samhengið þar við önnur lög. Það getur verið álitamál hvort það eigi að vera í almennum lögum eða í stjórnarskrá, já, en það er í raun og veru lagatæknilegt frágangsatriði hvort það er í stjórnarskipunarlögunum sjálfum eða í sérlögum um náttúruvernd. Ég tel að þessi vinna hafi einmitt verið mjög góð vegna þess að hún leiddi það í ljós þegar menn settust loksins yfir málin að það er miklu fleira sem sameinar okkur í þessum efnum en sem sundrar ef við látum það eftir okkur að vera sammála.