143. löggjafarþing — 80. fundur,  25. mars 2014.

náttúruvernd.

167. mál
[16:15]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í sjálfu sér er áhyggjuefni ef við hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon erum sífellt meira sammála, en það hefur reyndar gerst áður og gerðist oft á síðasta kjörtímabili.

Ég er sammála honum um að ágreiningurinn eða þ.e. úrlausnarefnið varðandi varúðarregluna er meira lagatæknilegs eðlis en efnislegs. Ég nefndi það nú reyndar í umhverfis- og samgöngunefnd að bara óvissan um það hvernig reglan yrði túlkuð gagnvart öðrum ákvæðum laganna eða jafnvel gagnvart ákvæðum annarra laga gæti leitt til þess að hugsanlega hefði verið betra að taka öll lögin upp vegna þess að reglan er mikilvæg og skiptir máli. En eins og við heyrðum í andsvari hv. þm. Brynjars Níelssonar áðan er reyndar líka ágreiningsefni um efnisatriði og mörk almannaréttar og jafnvel hvað varðar utanvegaaksturinn, (Forseti hringir.) en þó hefur margt áunnist eins og það að við erum sammála um að það ber að gera (Forseti hringir.) kortagrunn og við skulum vona að vinna við hann geti hafist fyrr en síðar.