143. löggjafarþing — 80. fundur,  25. mars 2014.

náttúruvernd.

167. mál
[16:16]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nei, ég tel það síður en svo áhyggjuefni fyrir hv. þingmann þó að við séum að verða meira og meira sammála í umræðum um náttúruverndarmál eða umhverfismál. Hv. þingmaður má vera alveg óhræddur við það, ég fullvissa hann um að hann er á réttri leið.

Varðandi lagatæknileg versus efnisleg álitamál, tökum bara utanvegaaksturinn sem dæmi: Er efnislegur ágreiningur um að ekki eigi að keyra utan vegar? Nei, það held ég ekki. Ég býð bara hverjum sem er að gefa sig fram sem mælir með utanvegaakstri. Ég held að hann sé ekki til. Alla vega mundu fáir gangast við því. Þá er þetta orðið að praktísku máli hvernig við tryggjum það í framkvæmd að akstur eigi sér ekki stað utan vega eða að vegakerfi landsins þróist stjórnlaust, ég tala nú ekki um inni á viðkvæmum svæðum eins og hálendinu. Þetta er praktískt úrlausnarefni, lagatæknilegt, praktískt, framkvæmdarlegt. Hvernig getum við í lögum með gögnum og síðan með (Forseti hringir.) eftirfylgni tryggt að við lýði sé það ástand sem við viljum, að utanvegaakstur eigi sér ekki stað?