143. löggjafarþing — 80. fundur,  25. mars 2014.

náttúruvernd.

167. mál
[16:46]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem fram kemur í máli hv. þingmanns að þarna er í raun og veru um að ræða grundvallarbreytingu á sýn, og sú grundvallarbreyting er í raun og veru meiri en allt annað í þessu frumvarpi, þ.e. að í staðinn fyrir að horfa á það sem við erum vön að tala um sem náttúruperlur, sem eru tilteknir og afmarkaðir staðir í náttúrunni, falleg fjara, fallegt fjall, fallegur foss o.s.frv., er verið að hverfa frá þeirri nálgun og segja: Þetta er allt hluti af heild, þetta er allt einhvers konar heild. Ein planta lifir ekki öðruvísi en að einhvers staðar sé vatn og einhvers staðar sé loft og að einhvers staðar séu hinar plönturnar o.s.frv., þannig að sú nálgun að vera með eins konar punktanálgun í friðlýsingum og perlunálgun í náttúruvernd er á undanhaldi. Og hún er ekki bara á undanhaldi í þessum nýju náttúruverndarlögum heldur líka í allri löggjöfinni í kringum okkur í Evrópu og í heiminum öllum.

Við erum hluti af samningi um líffræðilega fjölbreytni, sem snýst um það að viðhalda fjölbreytni tegundanna og þá skiptir einmitt máli að horfa ekki á hverja tegund sem staka heldur að hún er alltaf partur af vef og það vitum við í fiskveiðistjórnarvinnunni, við vitum að ef við tökum eina tegund út þá hefur það áhrif á allt lífríkið. Það sama gildir þarna. Þess vegna, þegar við erum að vernda tiltekna plöntu eða tiltekna dýrategund eða vatn eða foss eða hvað það er þá verðum við að vernda allt það sem kemur því náttúrufyrirbæri og þeim náttúruminjum við.

Ef ég á því að segja hvaða áhrif þetta hefði haft á mín störf hefði þetta auðvitað haft áhrif á friðlýsingu svæða, þetta hefði haft áhrif á utanumhald um þjóðgarða, utanumhald um skipulagslöggjöfina, samskipti við sveitarfélögin o.s.frv. Samtalið hefði í raun og veru verið með allt öðrum hætti.