143. löggjafarþing — 80. fundur,  25. mars 2014.

náttúruvernd.

167. mál
[16:51]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Viðfangsefnið utanvegaakstur er í raun það verkefni sem er mest aðkallandi frá ári til árs í náttúruvernd, vegna þess að verið er að vinna umhverfinu svo mikinn skaða með því að ná ekki utan um það mál. Ef ég ætti að nefna eitt mál sem ég teldi að mætti alls ekki bíða í núverandi lögum, þ.e. lögunum sem við erum enn að fresta, væri það utanvegaakstursmálið vegna þess að það munar um hvern mánuð þar.

Hv. þingmaður spyr: Hvernig í ósköpunum á að gera þetta? Hvernig á að vinna þetta samkomulag? Ef það væri einfalt þá væri búið að því. Margir umhverfisráðherrar á undan þeirri sem hér stendur hafa horfst í augu við þetta verkefni og reynt að byggja upp einhverja áætlun eða eitthvað slíkt og gert plön og aðgerðaáætlanir o.s.frv. en svo hefur bara orðið lítið úr því.

Þarna var verið að freista þess að ná utan um það í löggjöf að Landmælingar færu í þá vinnu í samstarfi við sveitarfélögin og landeigendur á hverjum stað, af því að það verður ekki gert öðruvísi. Það eru ekki til neinir algildir mælikvarðar eða neinar ófrávíkjanlegar reglur um það hvað teljist slóði og hvað teljist ekki slóði. Það verður alltaf að vera einhvers konar sameiginlegur skilningur þessara aðila, þeir verða að komast að þeirri niðurstöðu og síðan verða þeir í framhaldinu að ákveða kortið. En það sem skiptir öllu máli er að við erum að jafnaði þeirrar gerðar, Íslendingar, og þar með talið þeir sem vilja fara á jeppum um hálendið, að við viljum fara að lögum og við viljum vita hvað má og hvað má ekki. Við viljum vita hvar við göngum á náttúruna og hvar ekki og það gildir líka um jeppamenn. Þess vegna snýst þetta líka um að auka réttaröryggi þeirra sem fara um hálendið.

Þarna væri umhverfisráðherra í lófa lagið að hefja þessa vinnu þó að lögin séu ekki komin í gildi, (Forseti hringir.) vegna þess að það er ekkert sem bannar ráðherranum að gera það, en til þess (Forseti hringir.) þarf fjármagn. Ég skora á okkur öll hér að (Forseti hringir.) koma því þannig í kring að til verði peningar fyrir þessu.