143. löggjafarþing — 80. fundur,  25. mars 2014.

náttúruvernd.

167. mál
[16:53]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég tel rétt í upphafi í ræðu minnar að færa umhverfis- og samgöngunefnd þakkir fyrir að hafa náð niðurstöðu sem er að mínu mati ekki besta niðurstaðan en var kannski besta niðurstaðan sem mögulegt var að ná á þessum tímapunkti. Ég vil þakka nefndarmönnum, meiri hluta og minni hluta, fyrir að hafa forðað okkur frá því að þessi mikilvægu lög yrðu afturkölluð, þó að gildistökunni hafi verið frestað um 16 mánuði.

Þá vil ég líka færa þeim þingmanni sem flutti ræðu á undan mér, hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur, þakkir fyrir þá gríðarlegu vinnu sem hún lagði í, þá metnaðarfullu vinnu sem hún lagði í í upphafi síðasta kjörtímabils, að láta semja hvítbók um náttúruvernd og síðan eftir kynningu á þeirri hvítbók fór fram frumvarpssmíð og frumvarpið kom að lokum inn í þingið.

Þá tók við fyrrverandi hv. þingmaður Mörður Árnason, flokksbróðir minn úr Samfylkingunni, sem var framsögumaður málsins og vann gríðarlega vinnu. Hann stóð sig með eindæmum vel í því að ná eins mikilli sátt og unnt var á þeim tíma um frumvarpið og það náðist að gera það hér að lögum, þó að í samningum við stjórnarandstöðu hafi orðið að fresta gildistökunni. Það hefur síðan sýnt sig að varðandi þá frestun var fiskur undir steini, því að sá tími, þeir mánuðir sem nú eru liðnir af kjörtímabilinu, voru ekki nýttir sem skyldi. Reyndar hafa þeir verið notaðir vel af hv. umhverfis- og samgöngunefnd í þeirra vinnu, en hæstv. umhverfisráðherra virðist hafa lagt af stað í þessa ferð með afturköllunina án þess kannski að gera sér grein fyrir hvað það hefði unnið mikinn skaða að fella lögin úr gildi.

Það er nefnilega svo, eins og sjá má í nefndaráliti nefndarinnar, að það þarf rúma blaðsíðu í að telja upp alla gesti sem komu á fundi nefndarinnar og alla umsagnaraðila. Það er af því að það eru mjög margir sem líta á náttúruverndarlög sem stórmál og grundvallarmál, og lagabálka sem þessa ber að umgangast af virðingu. Ég tel nefndina með þessu nefndaráliti og breytingartillögum vera að stuðla að því að við fáum umbætur í náttúruvernd í takt við þær alþjóðasamþykktir og þau alþjóðalög og það kerfi sem við viljum vera hluti af.

Í stjórnmálum er mikið talað um sátt, samráð og sátt, og ég skal síst gera lítið úr mikilvægi þess. Mér hugnast alltaf best ef fólk getur fundið leið sem þjónar hagsmunum sem flestra. Við erum hérna 63 þingmenn, það eru kjósendur að baki okkur öllum. Reyndar hefur verið bent á 23 þúsund manns eiga í raun og veru ekki fulltrúa á þingi því að flokkarnir sem þeir kusu náðu ekki inn á þing, sem er náttúrlega alvarlegt lýðræðisvandamál og kemur þessu máli ekki beinlínis við. En það er talað um sátt og samráð.

Hvað felst í slíku? Í því felst að reyna að sætta sem flest sjónarmið, en sátt getur ekki verið algjör í öllum málum. Á einhverjum tímapunkti verða ákveðin viðhorf og sjónarmið öðrum yfirsterkari. Það er mikilvægt þegar svona ágreiningur er að reynt sé að leysa hann eins og unnt er en stundum er það þannig að ákveðnir hagsmunir lúta í lægra haldi. Ýmsum á náttúruverndarvængnum finnst sem hagsmunir náttúru og almannahagsmunir til lengri tíma séu þeir hagsmunir sem iðulega séu fótum troðnir. Ég er ein af þeim, ég tel svo vera.

Þess vegna langar mig rétt aðeins að fara yfir þetta ágæta nefndarálit einmitt með þetta í huga. Í nefndarálitinu, sem er mjög vel unnið og er leiðsögn varðandi áframhaldandi meðferð málsins, er farið yfir þá þætti sem helst standa út af. Og hvað er það? Það er almannarétturinn sem var þrengdur árið 1999. Árið 1999 voru í gildi lög frá 1971 og árið 1999 var almannarétturinn þrengdur. (Gripið fram í.)Nú á að víkka hann aftur, t.d. þannig að við höfum öll heimild til þess að fara yfir óræktað land þótt landeigandi hafi girt það nema landeigandi geti bannað slíka för af sérstökum ástæðum.

Þá er það líka svo varðandi almannaréttinn að ef upp koma álitamál samkvæmt þeim lögum sem nú er verið að fresta gildistökunni á er hægt að skjóta slíkum álitamálum til Umhverfisstofnunar og ráðherra, þ.e. álitamálum um frjálsa för almennings um land með eðlilegum takmörkunum, en áður, og nú af því að lögin hafa ekki tekið gildi, var eingöngu hægt að fara með slík álitamál fyrir dómstóla. Það að fara með mál fyrir dómstóla er stórmál þannig að mjög ólíklegt er að almennir borgarar leiti almannaréttar síns með þeim leiðum. Þá segir í nefndarálitinu að skýra þurfi betur samspil eignarréttar og almannaréttar og er mikilvægt að lögin veiti skýra leiðsögn í þeim efnum.

Ég sat ekki alla þessa fundi og hlustaði ekki á öll þau fjölmörgu sjónarmið og ég treysti því bara að það sé eitthvað óljóst þarna. En ég legg líka ríka áherslu á að andi löggjafarinnar sem við samþykktum hér í fyrra verði áfram hvað varðar almannaréttinn.

Þá komum við að varúðarreglunni, það er varúðarregla og sérstök vernd sem eru náttúrlega stóru málin. Þar kemur að því: Ætlum við að standa með náttúrunni eða ætlum við að auðvelda framkvæmdasömum aðilum að framkvæma?

Það er vaxandi hópur á Íslandi sem vill standa með náttúrunni. Við sáum grænu gönguna 1. maí sl. þegar allt í einu spruttu upp þúsundir manna sem gengu undir grænum fánum til þess að minna á þann fjölda fólks sem vill standa vörð um íslenska náttúru, um einstakar náttúruperlur sem og ákveðin landsvæði og þau ósnortnu víðerni sem við eigum, sem eru einstök. Ef við lítum til Evrópu, sem er sú álfa sem Ísland er staðsett í, er þetta einstakt ríkidæmi og í ýmsu tilliti líka á heimsmælikvarða. Við eigum einstök ósnortin víðerni hér sem eru samt ekkert rosalega stór svæði. Það er mjög auðvelt að eyðileggja varanlega þá einstöku náttúru sem við eigum og erum svo heppin að eiga og eigum að meðhöndla af virðingu og varúð.

Varúðarreglan og sérstök vernd miða eiginlega að því að snúa við sönnunarbyrðinni, eins og segir í nefndaráliti, með leyfi forseta:

„Inntak varúðarreglunnar er að skorti á vísindalegri fullvissu, þar sem hætta er á alvarlegu eða óbætanlegu tjóni, skuli ekki beitt sem rökum til þess að fresta skilvirkum aðgerðum sem koma í veg fyrir umhverfisspjöll.“

Þarna er verið að láta náttúruna njóta vafans og koma í veg fyrir að hægt sé að fara inn á viðkvæm svæði nema með mjög góðum rökum.

Varðandi sérstaka vernd eru ákveðin vistkerfi og jarðminjar sem geta lotið sérstakri vernd og er þá óheimilt nema brýna nauðsyn beri til og sýnt þyki að aðrir kostir séu ekki fyrir hendi að fara inn á þessi svæði.

Þar komum við að hinum stóra hagsmunaárekstri. Ég tel að oft og tíðum sé það þannig að ákveðnar framkvæmdir, eins og vegaframkvæmdir eða uppbygging á ákveðinni atvinnustarfsemi eða virkjanir af einhverju tagi, kunna að hafa gríðarlega mikilvæg efnahagsleg áhrif. En við þurfum alltaf að skoða hver efnahagslegu skammtímaáhrifin eru og hver langtímanáttúruáhrifin eru og við þurfum að vera með tæki og tól sem tryggja að langtímaáhrifin, að vörnin fyrir þau sé sterkari en skammtímagróðahagsmunir.

Svo kann að vera og hefur oft verið þannig — það er ekki eins og hér hafi ekki ýmislegt gengið á, það er ekki eins og hafi beinlínis verið komið í veg fyrir framkvæmdir. Við erum með ágætisdæmi um það þegar við tökum Kárahnjúkavirkjun. Þar voru aldeilis tekin landsvæði, dýrmæt landsvæði, ótrúleg náttúrufegurð og landslagsmyndir og varpsvæði gæsa og gljúfur og fossar og að engu gert. Búið var til lón og það mun að einhverjum áratugum liðnum verða einhvers konar eyðimörk sem blæs úr og eyðileggur allt í kringum sig. Arðurinn er ekki mikill, hann er nánast enginn af rafmagninu sem við seljum í álverið sem þessi stífla var búin til fyrir. Nú er lágt heimsmarkaðsálverð og þá er Landsvirkjun rekin með tapi, þó að hún hafi aldrei selt jafn mikið rafmagn í sögu sinni. En dýrmæt náttúrusvæði hafa að engu verið gerð á móti.

Það er vaxandi hópur, það eru fleiri og fleiri sem vilja stöðva, vilja að við hugsum okkar gang, förum varlega og endurmetum þá stefnu sem hér hefur verið rekin. Síðast í síðustu viku söfnuðust hátt í tvö þúsund manns á styrktartónleika fyrir Landvernd og Náttúruverndarsamtök Íslands. Þar var krafan meðal annars sú að ný náttúruverndarlög tækju gildi 1. apríl eins og þeim var ætlað og að gildistökunni yrði ekki frestað.

Ég get tekið undir þá kröfu en ég ætla ekki að rjúfa sáttina sem náðst hefur í umhverfis- og samgöngunefnd, enda tel ég að þar hafi verið valin sú leið sem er fær að þessu sinni. Það breytir ekki því að við erum að skjóta á frest hagsmunum náttúru Íslands og komandi kynslóða. Það eru 16 mánuðir, við ættum að geta lifað með því, en eins og fyrrverandi umhverfisráðherra benti á í ræðustól áðan þá skiptir hver mánuður máli, t.d. þegar kemur að utanvegaakstri. Ég vil því taka undir orð hennar varðandi það að umhverfisráðherra fari strax að vinna að kortagunninum og finna til þess fjármuni, því að hann mun koma. Það er eins gott að byrja, fyrr en seinna, því að þetta getur ekki gengið svona áfram endalaust.

Herra forseti. Nú má segja að að þessu sinni séum við í raun ekki í efnislegri umræðu um náttúruverndarlögin, eða að frumvarpið hafi boðið upp á efnislega umræðu, af því að það átti að afturkalla lög sem höfðu verið unnin af okkar helstu sérfræðingum á sviði náttúruverndar í fjögur ár, en nú er búið að breyta því og verið er að breyta gildistökunni þannig að þetta er formumræða en um leið er nauðsynlegt að fara í efni máls því að það er ekkert smáræði sem hangir á spýtunni.

Ég er alveg sannfærð um að þótt að þingmaðurinn Mörður Árnason hafi á sínum tíma leitað leiða til þess að sætta sem flest sjónarmið, sum ósættanleg, sé hægt að gera betur í einhverjum tilfellum, það er alltaf þannig, það er alltaf hægt að gera betur. Ég vona að í þeirri vinnu sem fram undan er verði ekki búin til meint sátt gegn náttúruvernd, því að það er engin sátt. Það þarf ekki annað en að hugsa til þeirra þúsunda sem nú eru að verða virkari í baráttuna fyrir náttúru Íslands, fólk sem á auðvitað ýmsa hagsmuni, en sameiginlegir hagsmunir okkar eru vörnin fyrir ómetanleg landsvæði sem við eigum sem Íslendingar, fyrir hálendið sem er í raun og veru svo auðvelt að eyðileggja ef það er engin fyrirhyggja, ef það er ekki hægt að hugsa nokkra áratugi fram í tímann og hugsa um komandi kynslóðir eða hugsa bara um það að fögur náttúra hefur gríðarlegt gildi í sjálfu sér.

Við erum þjóð sem vill skapa velsæld og atvinnutækifæri og halda uppi góðri heilbrigðisþjónustu og góðu menntakerfi og til þess þarf fjármuni. En það er ekki þannig að velsæld skapist með því að eyðileggja verðmæta náttúru. Ef við tökum þetta ekki alvarlega eyðileggjum við að lokum þá einstöku fegurð og stemningu sem við sem Íslendingar segjum svo stolt að móti okkur. Ég vona því að þótt ég samþykki þessa frestun sé ég ekki að vinna til lengri tíma gegn náttúruvernd á Íslandi, því að þá erum við grafa undan íslenskri sál. Ættjarðarást (Forseti hringir.) mín er meiri en svo að ég vilji taka þátt í því.