143. löggjafarþing — 80. fundur,  25. mars 2014.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

417. mál
[18:02]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir skýr svör að því marki sem hægt er að svara þeim spurningum sem beint hefur verið til hennar. Við höfum átt í umræðu í gær og í dag og ég held að það sé ljóst eftir þessa umræðu að almennur stuðningur er við meginbreytinguna í þessu frumvarpi.

Ég sjálfur er mjög fylgjandi því að með þeim hætti sem búið er um í frumvarpinu verði gerð skarpari skil á milli framkvæmdarvaldsins og ígildi löggjafa innan kirkjunnar, þ.e. kirkjuráðs og kirkjuþingsins. Ég hef litið svo á að í því felist lýðræðisvæðing vegna þess að með því að gefa kirkjuþinginu óskoruð völd, t.d. varðandi fjárveitingar, sé vald fært út til leikmanna kirkjunnar. Ég er fylgjandi því. Leikmennirnir eru í meiri hluta á kirkjuþingi og þessi meginbreyting er fín.

Síðan hafa verið fróðlegar umræður um nefndirnar tvær. Það er kannski ekki hægt að svara algjörlega þeim spurningum sem við blasa, sem við hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir og hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir höfum varpað hér fram. Þeim er ekki hægt að svara fyrr en menn sjá reglurnar. Hæstv. innanríkisráðherra hefur nánast lagaskyldu til að bera fram frumvarp sem kirkjuþing samþykkir. Í samræðum mínum og hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur í gær var hins vegar sammæli okkar að þingið getur ekki samþykkt hvað sem er. Réttindi allra verða að vera skýr. Í þessu tilviki er óskýrt hvert er hægt að skjóta úrskurði biskups eða hver ver starfsmenn þjóðkirkjunnar gagnvart biskupi ef á þarf að halda. Við höfum sögu sem við þurfum að horfa til.

Ég er hins vegar fyllilega sáttur við svör og skilning hæstv. ráðherra á þessu efni. Það verður þá bara að vera fagnefndin sem tekur á þessu og reisir þær girðingar sem hún telur þurfa til að hægt sé að afgreiða þetta mál sem ég er mjög hlynntur að verði (Forseti hringir.) afgreitt á þessu vorþingi.