143. löggjafarþing — 80. fundur,  25. mars 2014.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

417. mál
[18:05]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þarf svo sem ekki að bæta miklu við eða svara miklu hvað þetta varðar. Ég er sammála hv. þingmanni um meginefni þess sem kemur fram í því sem hann segir. Hann getur þess líka, sem er hárrétt, að á ráðherra þessa málaflokks hvílir sú skylda að stofni til að flytja það frumvarp sem óskað er eftir. Ekki þar fyrir, það kom auðvitað inn til innanríkisráðuneytisins og lagatæknilegum hlutum var breytt og tekið mið af því, en skylda þessa ráðherra er skýr hvað varðar þessa þætti.

Ég reyndi eins og ég gat að útskýra forsendur þess að það er talið skynsamlegt að leggja niður úrskurðar- og áfrýjunarnefndir hvað þetta varðar. En það er líka rétt sem kemur fram í máli hv. þingmanns og fleiri hér að auðvitað liggur ekki nákvæmlega fyrir fyrr en þær starfsreglur sem boðaðar eru verða tilbúnar. Nú verður þessum hlutum í ríkara mæli vísað til úrskurðar biskups og svo er auðvitað bara það sem tekur við ef upp rís ágreiningur vegna þess sem eru hinir almennu dómstólar.

Ég skil alveg og virði það að þingheimur vilji skýrari svör. Ég hvet þingmenn nefndarinnar til að taka upp öflugt samtal og samráð við kirkjuna um það og svo sjáum við hver niðurstaðan úr þeirri meðferð verður. Ég er sannfærð um að við munum afgreiða málið þannig að það verði til sóma fyrir okkur og til stuðnings fyrir kirkjuna.