143. löggjafarþing — 81. fundur,  26. mars 2014.

störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil gera að umfjöllunarefni hið skemmtilega hugtak „friðhelgi einkalífsins“. Það er okkur mjög mikilvægt og hefur verið lengi og kannski þess vegna er ákvæðið í stjórnarskrá. Þess vegna eru í lögum um meðferð sakamála gerðar miklar kröfur til þess að leyfilegt sé að ganga á friðhelgi. Meðal annars í ákvæðum um símahlustun, hleranir og önnur úrræði þeim tengd er gerð sú krafa að brotin verði að varða átta ára fangelsi, ellegar að ríkir almannahagsmunir krefjist slíkra aðgerða.

Í fréttum nýverið kom fram að nánast undantekningarlaust eru lögreglu heimiluð slík úrræði af íslenskum dómstólum. Við vorum þarna á toppnum, gott ef Moldavía var ekki í 2. sæti. Þetta segir að vísu ekki allt, það gæti verið að lögregla færi svo vel með sitt vald að hún væri ekki að biðja um þetta nema augljós rök væru til þess, en þegar skoðuð eru mál sem tengjast rannsókn sérstaks saksóknara liggur fyrir að brot sem þar var verið að rannsaka náðu ekki fyrrnefndum átta árum.

Þá spyr maður sig: Hvaða almannahagsmunir kröfðust þess að heimila slíkar aðgerðir lögreglu í þeim málum? Af hverju var lögreglan að hlusta á mig, verjandann, tala við sakborninginn og tók það upp? Allt þetta er eftirlitslaust. Það eru engir fjármunir til að sinna því eftirliti. Við þurfum að velta fyrir okkur hvort við þurfum að laga þessa löggjöf, tryggja að það séu óháðir eftirlitsaðilar sem fylgjast með því að slíkum gögnum sé eytt og hvort við (Forseti hringir.) þurfum hugsanlega að breyta lögunum svo svona gerist ekki. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)