143. löggjafarþing — 81. fundur,  26. mars 2014.

störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil gera hér að umtalsefni það upplausnarástand sem mér virðist vera að skapast í málefnum Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri. Vandi þess skóla og reyndar bændaskólanna eða landbúnaðarháskólanna beggja er ekki nýr af nálinni og á sér að hluta til uppruna í því að þegar skólarnir voru fluttir frá atvinnuvegaráðuneytinu til menntamálaráðuneytisins 2007, þá var aldrei gengið frá málefnum skólanna og gerðir upp þeir hlutir sem þá stóð til að gera upp. Það er vissulega á ábyrgð margra að síðan hefur það dregist úr hófi að taka á og koma í framtíðarhorf rekstrargrundvelli þessara mikilvægu stofnana en það breytir ekki hinu að starfsemin er mikilvæg og því er ónotalegt að sjá það hnútukast sem nú er hafið um framtíð Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri. Svo virðist vera sem hæstv. menntamálaráðherra hafi verið mikill áhugamaður um sameiningu skólans við Háskóla Íslands en það mætti andstöðu í héraði og víðar og ráðherra hafi því ákveðið að hverfa frá þeim áformum. Hann sendir í staðinn skólanum tóninn um að hann verði þar af leiðandi af um 300 millj. kr. uppbyggingu og fjárfestingum á næstu árum og verði jafnframt krafinn um að greiða allan uppsafnaðan rekstrarhalla undangenginna ára. Það gerir ráðherrann að eigin sögn í blaðaviðtölum vegna andstöðu þingmanna Bændasamtakanna og heimamanna við áform hans um sameiningu. Það eru ekki skemmtileg samskipti.

Ég leyfi mér að spyrja: Hefur hæstv. menntamálaráðherra eitthvert sérstakt fjárveitingavald í þessum efnum? Getur hann annars vegar lofað Landbúnaðarháskólanum hundruð millj. kr. uppbyggingu upp á sitt einsdæmi og hins vegar ákveðið að taka það svo af honum? Er þetta ekki fjárveitingamál, virðulegur forseti. Ég tel að svona samskiptamáti geti ekki gengið. Hæstv. menntamálaráðherra hefur engan fjárlagalegan refsivönd til að veifa yfir stofnununum ef þær lúta ekki hans vilja með þessum hætti. Það er ósæmilegt og ég hvet til þess að hv. fjárlaganefnd taki þá þetta mál að sér. Það er greinilega ekki í góðum farvegi eins og stendur í samskiptum skólans og ráðherrans og það verður að vinna úr þessu máli á uppbyggilegan hátt.