143. löggjafarþing — 81. fundur,  26. mars 2014.

störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Sigrún Magnúsdóttir sagði hér áðan að í dag væri stór dagur vegna þess að nú yrði það sannað að ríkisstjórnarflokkarnir stæðu við loforð sín. Eigum við þá að fara aðeins yfir þau loforð sem gefin voru í aðdraganda kosninga?

Það áttu að koma 300 milljarðar frá erlendum hrægömmum til greiða niður skuldir heimilanna. Niðurstaðan er þessi: 72 milljarðar koma í gegnum skattkerfið til að greiða niður hluta af skuldum sumra heimila. Það er staðreyndin þannig að menn skulu nú aðeins slaka á varðandi það að dagurinn í dag sé einhver sögulegur dagur vegna þess að menn skila aðeins broti af því sem þeir lofuðu í kosningabaráttunni, stærsta kosningamáli Íslandssögunnar og því dýrasta, (SigrM: Og staðið við.) bara broti af því. (SigrM: Og staðið við.) Virðulegi forseti. Það er ekki að standa við kosningaloforð að segja að 300 milljarðar komi frá hrægömmum til íslenskra heimila (Gripið fram í.) þegar það koma síðan bara 72 milljarðar (Gripið fram í.) í gegnum skattkerfið á fjórum árum. Það er ekki að standa við kosningaloforð. Ég verð að segja það alveg eins og er að umræðan í kringum þetta mál allt saman hefur verið með slíkum endemum að ég vona að við sjáum ekki annað eins hér í nánustu framtíð.

Það er sjálfsagt og mikilvægt að koma til móts við mörg skuldug heimili. Það gerði fráfarandi ríkisstjórn upp á að minnsta kosti 72 milljarða eins og þessi ríkisstjórn ætlar að gera — að minnsta kosti. Það eina sem verið er að gera hér er að halda áfram því verki sem fráfarandi ríkisstjórn hóf. Ég hef engu að síður mjög miklar áhyggjur af þeirri forgangsröðun sem framhald vinnunnar byggir á. Ég sé ekki betur en að ríkisstjórnarflokkarnir ætli að skilja eftir þann hóp sem klárlega þarf á stuðningi að halda og það er hinn svokallaði lánsveðshópur. (Gripið fram í.) Það er ekkert um lánsveðshópinn talað eða það samkomulag sem fráfarandi ríkisstjórn kláraði við lífeyrissjóðina (Forseti hringir.) þar sem þeir ætluðu að greiða hluta (UBK: Af hverju kláruðuð þið það ekki?) af niðurfærslunni (UBK: Af hverju kláruðuð þið það ekki?) (Forseti hringir.) til ... (UBK: Af hverju kláruðuð þið það ekki?) (Forseti hringir.) Við kláruðum það hv. þingmaður, við kláruðum það. (Forseti hringir.) Það var núverandi ríkisstjórn sem hefur hafnað (Forseti hringir.) því að ljúka því máli. (Gripið fram í.) Þau eru bara búin að hafna því, þau segja: Ja, við hefðum örugglega getað náð betri samningi. (Forseti hringir.) Við höfum ekki enn þá séð þann samning. (Forseti hringir.) Þau ætla hins vegar að taka niðurfærsluna í gegnum skattkerfið og sleppa lífeyrissjóðunum (Forseti hringir.) við að greiða þann hluta sem þeim ber að greiða.