143. löggjafarþing — 81. fundur,  26. mars 2014.

störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mig langar að byrja á því að taka undir orð hv. þm. Vilhjálms Árnasonar og lýsa yfir miklum áhyggjum yfir stöðunni í Herjólfsdeilunni, þeirri kjaradeilu sem hefur staðið yfir allt of lengi. Ljóst er að aðilar tala ekki einu saman þannig að við þurfum að fara að íhuga hver næstu skref verða.

En þá aðeins að þessum stóra degi í dag þegar ríkisstjórnarflokkarnir koma með þau mál inn í þingið er snúa að leiðréttingum húsnæðislána og þeirri heimild að nýta séreignarlífeyrissparnaðinn til að greiða niður húsnæðislán. Þetta eru stór frumvörp sem munu breyta mjög miklu fyrir mjög margar fjölskyldur í landinu og ég fagna því sérstaklega að við séum komin á þann stað að þingið fari að vinna þau mál.

Þá er komið að því að allir aðilar íhugi hvernig þeir ætla að bregðast við. Stjórnarandstöðuflokkarnir hafa sagt fyrr á þessum þingvetri að þeir muni greiða fyrir því að mál af þessum toga komist í gegnum þingið. Nú fer að reyna á hvort menn ætla að nálgast umræðuna á rólegan og yfirvegaðan hátt, skoða málin, kannski lesa frumvörpin áður en þeir æsa sig upp á háa c-ið í ræðustól og fara síðan í málin með okkur. Þetta eru málin sem kosið var um og ástæðan fyrir því að þetta var aðalmálið í síðustu kosningum er að síðasta ríkisstjórn var ekki búin að leysa þessi mál, hún náði ekki árangri í þeim málum [Háreysti í þingsal.] og þess vegna erum við núna, (Gripið fram í.) mörgum árum eftir hið svokallaða hrun, að fara að taka þessi stóru mál hingað inn í þingið á þeim hugmyndafræðilega grundvelli sem núverandi ríkisstjórn stendur fyrir. Ég hlakka svo sannarlega til að sjá hvernig stjórnarandstaðan ætlar sér að vinna málin með okkur og greiða fyrir því að þau komist í gegnum þingið.