143. löggjafarþing — 81. fundur,  26. mars 2014.

náttúruvernd.

167. mál
[15:38]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér erum við að fara að greiða atkvæði um risastórt mál sem náðst hefur söguleg sátt í. Ég fagna því sérstaklega og þakka öllum nefndarmönnum og hæstv. umhverfisráðherra fyrir þátttöku þeirra í þeirri ágætu sátt sem náðist um meginstofn frumvarpsins og þá vinnu sem fram undan er. Ég tel það mjög mikilvægt. Ég vil sérstaklega þakka hv. þm. Róberti Marshall. Öll nefndin sendir honum góðar batakveðjur og vonandi kemur hann til starfa í nefndinni hið allra fyrsta. Hann á sinn þátt í því að svo vel tókst til.

Það er líka ágæt samstaða um framhald og framgang málsins. Ég tel það mikið fagnaðarefni á Alþingi og vonandi vísi að því sem koma skal að náðst geti sátt í jafn stóru máli og hér um ræðir.