143. löggjafarþing — 81. fundur,  26. mars 2014.

náttúruvernd.

167. mál
[15:40]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Um leið og ég tek undir með hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni og þakka samnefndarmönnum mínum í hv. umhverfis- og samgöngunefnd fyrir sérlega gott samstarf vil ég líka nota tækifærið og segja að ég bind miklar vonir við framhaldið, að við nýtum vel þann tíma sem fram undan er til að geta lokið vinnu við ný náttúruverndarlög þannig að við fáum hér nýja og framsækna löggjöf á þessu sviði.

Ég skrifaði undir nefndarálit nefndarinnar með þeim fyrirvara að helst hefði ósk mín verið sú að lögin hefðu tekið gildi núna 1. apríl af því að ég tel að þau feli í sér mjög mikla framför. En til að vinna málinu gagn fannst mér mikilvægt að við næðum saman um þessa lausn og ég er mjög ánægð með þá vinnu sem verið hefur í hv. umhverfis- og samgöngunefnd og þess vegna er ég vongóð um að við finnum góða lausn og getum séð ný og framsækin náttúruverndarlög á árinu 2015.