143. löggjafarþing — 81. fundur,  26. mars 2014.

náttúruvernd.

167. mál
[15:43]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka formanni nefndarinnar, hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni, fyrir að ná einstöku samkomulagi um ákaflega erfitt mál sem kom inn í þingið. Það var með þeim hætti að ég var mjög svartsýn á að við næðum einhverjum sameiginlegum fleti og farsælli lausn.

Alltaf þegar ný skref eru tekin er tilefni til að ætla að næsta skref verði í sömu átt. Ég hvet samþingmenn mína bæði í umhverfis- og samgöngunefnd sem og öðrum nefndum til að feta í fótspor umhverfisnefndar sem við greiðum nú atkvæði um sem er mjög jákvætt. Ef við gætum haft fleiri svona mál í þinginu held ég að traustið til okkar mundi hækka ört.