143. löggjafarþing — 82. fundur,  26. mars 2014.

náttúruvernd.

167. mál
[15:58]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þó að við höfum náð þeirri niðurstöðu í nefndinni að vera sátt við verklagið skiptir mjög miklu máli að við náum að klára málið í sama anda, þ.e. að ráðherra hafi gott samráð við nefndina í vinnu hennar eins og hann hefur sagst ætla að gera og sömuleiðis að haft verði gott samráð þannig að niðurstaðan úr þessu verði raunveruleg sátt í stað þess að við förum í ferli þar sem sams konar vinnubrögð verða viðhöfð og menn viðhöfðu þegar þeir lögðu málið fram upphaflega.

Ég hef trú á því miðað við orð hæstv. umhverfisráðherra hér áðan að svo verði, en enn og aftur ætla ég að segja hér við afgreiðslu þessa máls: Enn eru málefni umhverfisins og auðlindanna í uppnámi m.a. vegna þess að menn hafa sett rammaáætlun og túlkun hennar inn í umræðuna með afar undarlegum hætti að mínu mati. Ég er ekki sátt við hvernig það hefur verið gert, enda var ég sú sem lagði hér fram og mælti fyrir frumvarpinu á sínum tíma. Ég tel að menn fari þar ekki rétt með það (Forseti hringir.) og fylgi ekki anda laganna. (Forseti hringir.)

Ég vona að það vinnulag sem við höfum sýnt (Forseti hringir.) í þessu máli verði einnig viðhaft til að ná sátt í því máli.