143. löggjafarþing — 82. fundur,  26. mars 2014.

náttúruvernd.

167. mál
[16:01]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka allt það hrós sem umhverfisnefnd hefur fengið (Gripið fram í.) vegna þess að við eigum þetta saman. Ég hef tekið eftir því í umræðunni að um leið og menn nota tækifærið til að hrósa nefndinni gera þeir lítið úr störfum einhverra annarra hér á Alþingi. Það þykir mér miður, ég verð að segja það alveg eins og er. Við verðum að virða vald hverrar nefndar fyrir sig til að taka öll þau mál sem eru á borðum hennar og leysa þau á farsælan hátt.

Þetta er ágætisfordæmi, ég veit það og við skulum vona að það gangi vel, en ég ætla að ítreka þessi sátt náðist í góðu samstarfi við umhverfisráðherra, í góðu samstarfi við hagsmunaaðila o.fl. Ég var svo pínu hugsi eftir ræðu hér þess þingmanns sem talaði á undan mér, hv. formanns Samfylkingarinnar, og velti fyrir mér hvort við ættum að kalla saman félag prestssona á Alþingi (Forseti hringir.) og ræða aðeins hvernig við eigum að ná betri sátt og málefnalegri umræðu um stór mál. [Hlátur í þingsal.] (Gripið fram í.)