143. löggjafarþing — 82. fundur,  26. mars 2014.

samningur um þátttöku Króatíu á Evrópska efnahagssvæðinu.

288. mál
[16:03]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka nefndinni fyrir vinnu hennar að þessu máli. Það kom hér til umræðu fyrr á þessum vetri og lýtur að því að fresta frjálsri för íbúa nýs aðildarríkis Evrópusambandsins inn á okkar vinnumarkað. Það höfum við út af fyrir sig gert áður, ég hef jafnan haft efasemdir um að við þurfum að nýta slíkar heimildir. Ég minnist þess að þegar við gerðumst í upphafi aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið voru uppi miklar hrakspár um það hvernig landið mundi allt fyllast af erlendu vinnuafli úr Suður-Evrópu sem mundi flykkjast hingað og taka vinnuna af okkur. Skemmst er frá því að segja að engar þeirra hrakspáa gengu eftir og engin stórkostleg áföll urðu á vinnumarkaði okkar þótt við yrðum hluti af hinum evrópska vinnumarkaði. Ýmsar hrakspár um það þegar einstök ríki hafa gengið til liðs við þennan sameiginlega markað hafa heldur ekki gengið eftir.

Það er hins vegar sjálfsagt að hafa allan vara á og nýta þennan fyrsta frest. Ég vil hér við 3. umr. leggja áherslu á þann skilning sem fram kom í máli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar við umræðu fyrr um málið að við nýtum þennan frest núna en hyggjumst ekki nýta þá aðra möguleika á frestun sem við eigum þó í boði í framtíðinni. Það kom fram þegar hann ræddi þetta hér í umræðunni við hæstv. utanríkisráðherra að það væri líka skilningur utanríkisráðherra að þessi frestur væri bara nýttur í þetta sinn en menn hefðu ekki að óbreyttu í hyggju að nýta hin seinni tækifærin. Ég vil bara áður en gengið er til lokaatkvæðagreiðslu um málið árétta þennan skilning minn.