143. löggjafarþing — 82. fundur,  26. mars 2014.

smáþörungaverksmiðja Algalífs Iceland ehf. á Reykjanesi.

375. mál
[16:19]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef eitthvað á að ná að taka gildi 1. júlí er ekki seinna vænna að fara að koma með það inn í þingið, bara svo það sé sagt.

Það var ég sem iðnaðarráðherra sem lagði þetta ívilnanafrumvarp fram á sínum tíma og veit ekki betur en að lögin og lagaumhverfið hafi þá verið samþykkt af ESA. Það sem ESA hefur tekið til skoðunar, ekki endilega til að gagnrýna, er framkvæmdin, ekki kerfið sjálft. Það væri þá mjög undarlegt ef stofnunin tæki upp að nýju sína eigin niðurstöðu. Ég hef ekki heyrt að slíkt hafi verið gert. Það er um að ræða framkvæmdina en ekki lögin sjálf.

Það er stefnumótandi að taka ákvörðun um að láta lögin ekki halda gildi sínu þangað til einhver endurskoðun á sér stað og koma þannig með eitt og eitt mál og einn og einn samning hingað inn. Telur hæstv. ráðherra það vera leiðina sem við eigum að halda áfram með ef ekki næst að koma með nýtt ívilnanafrumvarp inn fyrir lok þings?

Með málefni Bakka er málið þannig vaxið að þar er verið að brjóta ný lönd, þ.e. það eru engir innviðir til staðar fyrir norðan, þar er ekki hafin iðnaðaruppbygging og það er mjög erfitt að selja mönnum það að fara inn á slíkt svæði sem brautryðjendur. Það voru rökin að baki því að fara þá leið að þeir fengju ögn ríkari ívilnanir, það var nú ekki mikið, en kveðið var á um það í ívilnanalögunum.

Mig tók sárt að gera þetta svona en það breytti því ekki að þar eru aðstæður algerlega ósambærilegar við það sem hér er til umræðu. Þar er svo sannarlega búið að brjóta lönd og þar eru svo sannarlega (Forseti hringir.) allir innviðir til staðar og ekki erfitt að selja mönnum það að setja sig þar niður.