143. löggjafarþing — 82. fundur,  26. mars 2014.

smáþörungaverksmiðja Algalífs Iceland ehf. á Reykjanesi.

375. mál
[16:24]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég sé að sjálfsögðu ástæðu til að gleðjast yfir því og óska mönnum til hamingju með það að þarna er að fara af stað áhugavert lítið eða tæplega meðalstórt iðnaðarverkefni á Suðurnesjum og er fullkomlega eðlilegt og í samræmi við þá hefð sem mótast hefur frá og með 2010/2011 að það njóti einhvers konar stuðnings á uppbyggingartíma eins og allmörg verkefni hafa fengið á undangengnum árum.

Ég vil þó taka fram að ég tel að það eigi alls ekki að vera nema tímabundið ástand að flytja þurfi sérfrumvarp eða setja sérlög í hvert skipti um hvert einstakt fjárfestingarverkefni. Það er afturhvarf til tíma sem ég held að við eigum alls ekki að stefna að, heldur þvert á móti, gera þær lagfæringar eða breytingar sem þarf til þess að við getum haft í gildi almenna rammalöggjöf sem hver og einn geti gengið að sem vísri og sjái hvað honum kunni að standa til boða í fjárfestingar- eða ívilnunarsamningi.

Ég kannast ekki við þá dökku mynd sem hæstv. ráðherra dró hér upp af einhverju óskaplegu frosti og ástandi. Satt best að segja sé ég ekki annað en að þetta hafi gengið ágætlega. Allmörg góð verkefni hafa fengið fjárfestingarsamninga og eru komin af stað. Þó að eitt þeirra hafi að vísu lent í ógöngum og rekstrarerfiðleikum og sé strand, sem er auðvitað miður, sömuleiðis framkvæmd á Suðurnesjum, þá eru önnur ýmist að fara í gang eða þegar komin í rekstur.

Ég held að þetta sé hin eðlilega aðferðafræði. Ég fagna þar af leiðandi því sem kom fram í máli hæstv. ráðherra og ég hafði ætlað að spyrja um, að von sé á frumvarpi um endurnýjaða rammalöggjöf í þessum efnum. Það á að sjálfsögðu að vera almenn aðferðafræði að ekki þurfi að flytja frumvarp í hvert og eitt sinn heldur liggi ramminn fyrir og inn í þann ramma sé svo fyllt eftir einhverjum viðmiðunum sem þurfa auðvitað að þróast í þessum efnum, þ.e. hvað sé eðlilegt og réttlætanlegt að ganga langt í hverju tilviki miðað við aðstæður á hverjum stað. Það hlýtur að lokum að ráða úrslitum að ívilnunin eða stuðningurinn taki mið af því hvers þarf með til að viðkomandi verkefni geti farið af stað við þær aðstæður sem því bjóðast þar sem það hefur ákveðið að bera niður með staðsetningu sína.

Varðandi breytingarnar sem voru fluttar á lögunum um svipað leyti og sérstök ívilnun kom vegna verkefnisins á Bakka þá var af ósköp einföldum ástæðum ákveðið að fella út úr lögunum heimildir til að greiða beina stofnstyrki. Íslensk stjórnvöld höfðu ekki talið sig vera í færum til þess að reiða fram beint fé. Það væri betra að bjóða ríkari ívilnun á uppbyggingar- og starfstíma verkefnanna fyrstu árin en að í lögunum væri fyrirheit um að menn gætu fengið beina fjárfestingarstyrki útgreidda ef aðstæður og ríkisbúskapurinn hjá okkur byði ekki upp á slíkt. Ég held að það hafi verið skynsamleg breyting vegna þess að svo lengi sem slíkt ákvæði stendur í lögum, jafnvel þótt það sé óvirkt og menn fallist ekki á stofnstyrkina reyna menn alltaf að sækja sér þá. Síðan lá fyrir að þetta þyrfti að skoðast í tengslum við byggðakortið.

Bakki sem bar hér á góma var verkefni sem mjög mikil sérstaða gilti um. Eins og þegar hefur komið fram í andsvari var alveg ljóst að þröskuldurinn var hár að fá aðila til að setja niður starfsemi á nýju svæði þar sem heilmiklar framkvæmdir og fjárfestingar þurfti til til þess að skapa aðstæður fyrir uppbyggingu iðnaðar. Fljótlega kom í ljós þegar þetta var skoðað að það væri ekki bara réttlætanlegt heldur sennilega óumflýjanlegt, til þess að af því verulega verkefni gæti orðið, að stjórnvöld gætu teygt sig eitthvað lengra en almenni ramminn gerði ráð fyrir. Þar af leiðandi þurfti að koma til sérákvæði og heimild í lögum fyrir því.

Nú vill svo vel til að það mál er í höfn hvað þennan þátt málsins varðar. ESA samþykkti fyrir nokkrum dögum báða samningana, bæði um þátttöku ríkisins í hafnargerðinni og fjárfestingarsamninginn við PCC Bakka Silicone hf. Umræða sem var á þeim tíma, að þar væri gengið of langt eða það skapaði einhver hættuleg fordæmi, er að mínu mati úr sögunni. ESA hefur einfaldlega tekið rök stjórnvalda góð og gild og fallist á öll helstu rökin fyrir því að við þessar aðstæður — ég tek það fram — og í því tilviki væri réttlætanlegt að ganga lengra. Það gildir ekki endilega um aðila nr. 2 og 3 á því svæði því að þeir njóta góðs af því að aðrir eru búnir að ryðja brautina. Það verður auðvitað að vega og meta í hverju tilviki hversu langt eigi að ganga.

Það er ánægjulegt að þarna sé að fara af stað verkefni sem skapi 30 heilsársstörf og noti 5 megavött af raforku. Það sem er ekki síður ánægjulegt er að þetta er ný atvinnustarfsemi á sviði líftækni eða hátækni og eykur þar af leiðandi fjölbreytnina í flóru nýrrar atvinnuuppbyggingar.

Má ég þá leyfa mér að minna á að þetta verkefni fór af stað í tíð fyrri ríkisstjórnar og vinnan við gerð fjárfestingarsamnings var sett af stað þá. Því var iðulega haldið fram að allt væri í frosti og enginn þyrði að koma nálægt landinu, m.a. út af þeirri hræðilegu ríkisstjórn, en hér er ég með (Gripið fram í.)skjalfesta sönnun fyrir því, herra forseti, að verkefnið sem hæstv. ráðherra er svona ánægður með fór af stað í tíð fyrri ríkisstjórnar og mörg, mörg fleiri sem vonandi verða sem flest að veruleika á allra næstu árum — ekki veitir okkur af.

Það er sérstaklega ánægjulegt ef hér verður fjölbreytt flóra mismunandi tegunda atvinnurekstrar og á mismunandi sviðum þannig að minni líkur verði á sveiflum sem gangi yfir stóra geira atvinnulífsins í einu, eins og er í okkar tilviki hvað varðar heimsmarkaðsverð á áli. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um að íslenskt efnahagslíf er orðið býsna tengt verðsveiflum á álmörkuðum, bæði útflutningstekjurnar sjálfar og afkoma orkufyrirtækjanna, í allt of ríkum mæli reyndar. Hér er sem sagt allt önnur tegund iðnaðar á ferðinni sem fer inn á aðra markaði og það er vel.

Ég held í sjálfu sér að ekki sé miklu við þetta að bæta nema að spyrja hæstv. ráðherra, úr því við höfum kost á því að eiga við hann orðastað, hvenær við megum eiga von á þessu frumvarpi og hvort það verði ekki frumvarp til laga um ívilnunarsamninga, þ.e. rammalög, sem verði svipað og löggjöfin frá 2010, að meiningin sé að mönnum standi slíkur stuðningur til boða við nýfjárfestingar óháð því hvort um innlenda eða erlenda fjárfesta sé að ræða. Væntanlega verða gerðar kröfur um fjárfestingu yfir einhverjum mörkum. Í öðru lagi: Hversu mörg verkefni bíða þess að fá samning af þessu tagi? Eru fleiri í pípunum sem verða flutt sér frumvörp um eða er þess að vænta, ef t.d. Alþingi tekur vel á móti frumvarpinu og gerir það að lögum fyrir sumarið, að í kjölfarið muni bætast við fleiri ívilnunarsamningar vegna verkefna sem séu í pípunum? Ég held að ánægjulegt og fróðlegt sé að vita af því.

Þetta var það helsta, virðulegur forseti, sem ég vildi um þetta mál sagt hafa.