143. löggjafarþing — 82. fundur,  26. mars 2014.

smáþörungaverksmiðja Algalífs Iceland ehf. á Reykjanesi.

375. mál
[16:46]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svarið í lokin er akkúrat kjarni málsins. Ég er alveg sammála því að það var vont að þurfa að koma með ný sérlög inn í þingið um Bakka, en hin lögin, og sérstaklega hvernig þau höfðu verið framkvæmd, gerðu það að verkum að það var óhjákvæmilegt ef menn ætluðu að mæta landnemum þar fyrir norðan með einhverjum ríkari hætti en almennt gerðist.

Þess vegna er alveg rétt og ég tek alveg undir að það var slæmt og vont gagnvart lögunum og gróf undan þeim að ákveðnu leyti. Þess vegna held ég að hafa verði þetta sjónarmið inni við endurskoðun á löggjöfinni og þessu umhverfi þannig að menn séu alveg með opin augu gagnvart því að það geti komið til ríkulegri ívilnana. Það yrðu þá allir meðvitaðir um það við ákveðnar aðstæður sem væru bara niðurnjörvaðar, þ.e. að öllum sé ljóst við hvaða aðstæður það sé og þá þurfi ekki að koma til þess að menn komi hingað inn með sérlög, en þeir geti gert þetta að ákveðnum skilyrðum uppfylltum samkvæmt almennum lögum.

Ég mundi að minnsta kosti vilja og vona að hæstv. ráðherra skoði það mjög vandlega. Það er kannski það atriði sem ég mundi fylgjast með í þessari lagasetningu hvernig verður farið með. Ef við ætlum að gæta að hinni almennu löggjöf megum við ekkert fara út frá henni, alveg eins og hæstv. ráðherra nefndi áðan, öðruvísi en að það orki tvímælis, nema við séum með það lögbundið við hvaða aðstæður það er gert. Það held ég að gæti verið, ef það er hægt, farsælasta leiðin.