143. löggjafarþing — 82. fundur,  26. mars 2014.

smáþörungaverksmiðja Algalífs Iceland ehf. á Reykjanesi.

375. mál
[16:48]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að sjálfsagt er að skoða það hvort það samrýmist til að mynda ríkisstyrkjareglum Evrópusambandsins, sem við þurfum náttúrlega að smíða þetta í kringum. Vegna þess að hv. þingmaður spurði um hvort gerðar hefðu verið athugasemdir við lögin sjálf á vettvangi ESA eða við framkvæmdina, þá er það rétt að athugasemdir voru gerðar að mestu leyti við framkvæmdina. Við vitum að vísu ekki hvað það var vegna þess að ekki er komin niðurstaða í þau mál, en þó var lagabreyting gerð þar sem ívilnanirnar voru auknar sem var ekki samþykkt af ESA. Ég ítreka það að þegar sú staða var komin upp var þetta þannig að það gekk hvorki né rak. Sem betur fer er búið að laga þá stöðu og samskipti okkar við ESA eru núna með ágætum. Það er ekki síst fyrir tilstuðlan og fyrir góða og öfluga vinnu starfsmanna ráðuneytis míns sem búið er að koma þessu aftur á réttan kjöl.

Það er rétt sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði að það er mikið fagnaðarefni að allir samningar og öll löggjöf varðandi Bakkamálið er allt komið í gegnum ESA. Ég vil nota tækifærið og hrósa starfsmönnum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins fyrir það vegna þess að við höfum lagt okkur mjög fram um að koma þeim samskiptum á betri stað, mynda það nauðsynlega traust sem þarf á milli okkar og stofnunarinnar einmitt til þess að við getum haft, eins og ég tek undir með hv. þingmanni, skilyrðin sem skýrust, hindranirnar sem fæstar og tímann sem stystan sem tekur að koma þessum málum í farsæla höfn.