143. löggjafarþing — 82. fundur,  26. mars 2014.

smáþörungaverksmiðja Algalífs Iceland ehf. á Reykjanesi.

375. mál
[16:50]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Já, það vil ég gera líka. Ég vil hrósa starfsmönnum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins fyrir frábærlega vel unnin störf og ekki bara í þessu máli heldur í gegnum tíðina. Ég tel að þeir hafi vandað sig eins á árum áður gagnvart samskiptum við ESA, en það geta alltaf komið upp hnökrar út af einhverjum ástæðum, hugsanlega flýti í þinginu eða öðru. Starfsmenn ráðuneytisins hafa alltaf vandað sig hvað ESA varðar, ég held að það sé ekkert nýtt, eins og mér fannst hæstv. ráðherra segja áðan. Það er held ég eitthvað sem hefur verið grunnurinn í starfi þeirra hingað til.

Virðulegi forseti. Ég fagna því að heyra það sem hæstv. ráðherra segir, að hún sé til í að skoða þetta. Mér heyrist hún frekar vera, þó að ég hafi ekki alveg náð utan um það, á línu þess að vera með almenna löggjöf en að gera þetta sértækt í hvert sinn.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan að fjárfestingarkostirnir gjörbreyttust sem fóru að fá ívilnanasamninga eftir að almenna löggjöfin kom vegna þess að það var ekki á allra færi að fara í svona stóra samningagerð eins og stóru álfyrirtækin gerðu við ríkið á árum áður, þ.e. það var ekki jafn aðlaðandi fyrir minni fjárfestana að gera það. En þegar skapalónið liggur fyrir þurfa þeir ekki að fara í tvíhliða viðræður við ríkið um annað en að veita þau gögn sem eru forsenda fyrir því að þeir geti fengið samning sem byggir á löggjöfinni. Það er að mínu mati miklu eðlilegra og liprara, fyrir utan hvað okkur vantar skýrari reglur. Ég held að við hæstv. ráðherra séum sammála um að það skiptir svo gríðarlega miklu máli í erfiðu fjárfestingarumhverfi eins og er hér á landi, í hinu stóra sögulega samhengi, að gagnsæi og leikreglur séu skýrar, og gagnsæi sé algert lykilatriði þannig að allir viti að hverju þeir ganga.