143. löggjafarþing — 82. fundur,  26. mars 2014.

smáþörungaverksmiðja Algalífs Iceland ehf. á Reykjanesi.

375. mál
[17:05]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Eins og aðrir gleðst ég yfir þessu nýja verkefni. Þetta er alveg ný grein í flóru íslenskra fyrirtækja, þekkingargrein sem byggir á vísindum og sérhæfingu og er mjög jákvætt að því leyti. Það er jákvætt að hafa fengið þetta fyrirtæki til landsins.

Lýk ég þá tali mínu um hið jákvæða. Ég hugsa að samningur eins og sá sem hér liggur fyrir mundi gleðja hvert einasta íslenskt fyrirtæki og hvetja til dáða í fjárfestingum, menntun starfsmanna o.s.frv. Fjárfesting á Íslandi er í lágmarki vegna þess að á síðasta kjörtímabili voru samþykktar að talnafróðra manna sýn 200 breytingar á skattalögum. Flestar voru íþyngjandi og mjög margar sneru að fyrirtækjum svo það er von að fjárfestingin sé lítil.

Ég skora á ráðherrann að minnast á það við hæstv. fjármálaráðherra hvort ekki mætti gera eitthvað af því sem hér er lagt til við íslensk fyrirtæki, sérstaklega tryggja þau fyrir skattahækkunum framtíðarinnar. Ég held að það mundi gleðja þau mörg að þurfa ekki að sæta þvílíkum ósköpum eins og á síðasta kjörtímabili.

Ég mundi vilja skoða þessa liði alla, tekjuskattinn, tryggingagjaldið og sérstaklega námsstyrkinn sem er 10 millj. kr. á hvert starf, þetta eru 2 milljónir evra sem er gert ráð fyrir handa 30 starfsmönnum. Ætli það setti ekki heldur betur kraft í íslenskt atvinnulíf og stækkaði kökuna sem ríkisstjórn síðasta kjörtímabils var svo upptekin af að skipta.

Við þurfum að huga að því að stækka kökuna þannig að ríkissjóður fái meira, sem og almenningur og fyrirtækin.